Enski boltinn

Arsenal í annað sætið eftir öruggan sigur á Wolves

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andrei Arshavin fagnar marki sínu í dag.
Andrei Arshavin fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty Images

Arsenal vann í dag öruggan 4-1 sigur á Wolves í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni og kom sér þar með í annað sæti deildarinnar.

Arsenal og Manchester United eru nú bæði með 25 stig eftir ellefu leiki en Arsenal með betra markahlutfall.

United getur þó komið sér á topp deildarinnar með sigri á Chelsea en kemst í annað sætið á ný með jafntefli.

Fyrstu tvö mörk Arsenal í dag voru sjálfsmörk en Eduardo virtist í fyrstu hafa skorað þau bæði. Fyrst stýrði Ronald Zubar knettinum í eigið mark þegar hann reyndi að koma í veg fyrir að Eduardo næði til boltans.

Þá átti Eduardo skot sem breytti um stefnu á Jody Craddock og hafnaði í markinu.

Cesc Fabregas kom svo Arsenal í 3-0 í lok hálfleiksins. Andrei Arshavin jók muninn í fjögur mörk á 66. mínútu en Craddock minnkaði muninn fyrir heimamenn.

Wolves er í átjánda sæti deildarinnar með átta stig eftir ellefu leiki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×