Innlent

Engin niðurstaða um gjaldeyrissamninga

Arnar Sigurmundsson og Hrafn Magnússon funda með fjármálaráðherra í febrúar, ásamt öðrum fulltrúum lífeyrissjóðanna. Samningar standa yfir um hvaða gengi ráði uppgjöri framvirkra gjaldeyrissamninga.
fréttablaðið/pjetur
Arnar Sigurmundsson og Hrafn Magnússon funda með fjármálaráðherra í febrúar, ásamt öðrum fulltrúum lífeyrissjóðanna. Samningar standa yfir um hvaða gengi ráði uppgjöri framvirkra gjaldeyrissamninga. fréttablaðið/pjetur

Ekki hefur náðst samkomulag milli bankanna og þeirra sem áttu framvirka gjaldeyrissamninga fyrir fall fjármálakerfisins. Deilt er um á hvaða gengi samningarnir verða gerðir upp og ljóst er að það getur munað tugum milljarða hvert viðmiðunargengið verður.

Um fimmtán lífeyrissjóðir voru með framvirka gjaldeyris­samninga í öllum þremur bönkunum og við fall bankanna voru þeir samningar neikvæðir um sem svaraði 70 milljörðum króna. Á móti kemur áttu sjóðirnir skuldabréf á bankana upp á rétt rúmlega 100 milljarða króna.

Ekki er sjálfgefið að lífeyrissjóðir eigi bréf í sömu bönkum og gjaldeyrissamningarnir eru í og Arnar Sigurmundsson, stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða, segir að líka sé hægt að skuldajafna um 40 til 50 prósent af skuldabréfunum gegn samningunum. Sjóðirnir myndu samkvæmt þessu skulda bönkunum um 20 til 30 milljarða vegna samninganna, en eiga 50 til 60 inni hjá þeim í skuldabréfum, sé litið heilt yfir, sem séu kröfur í þrotabú.

Þá er hins vegar gert ráð fyrir að framvirku samningarnir séu gerðir upp á genginu sem var þegar bankarnir féllu, en á það hafa bankarnir ekki fallist. Arnar segir lögfræðiálit styðja kröfuna.

„Það er orðinn víðtækur skilningur á því að þegar bankarnir féllu voru þeir ófærir um að sinna þessu. Þær viðræður sem í gangi eru hafa beinst að því að ná lendingu sem tæki mið af þeirri staðreynd.“ Arnar segir að ef gjaldeyrissamningarnir hefðu farið í nýju bankana, líkt og ætlað var, hefði vandamálið ekki komið upp. Ákveðið hafi þó verið að skilja þá eftir hjá skilanefndunum.

Hrafn Magnússon, formaður Landssamtakanna, segir afnám banns um málsókn gegn fjármálafyrirtækjum ekki breyta miklu. Gert sé ráð fyrir að það sé bankanna að sækja í málinu, en reynt sé að ná samningum um það og sáttatillaga lífeyrissjóðanna gangi út á gengisvísitöluna 175. Hjá sjávarútvegsfyrirtækjum er neikvæð staða á samningunum um 17 milljarðar og heldur minna hjá byggingarfyrirtækjum.

Fjárfestingarfyrirtækið Kjalar hefur krafist þess að samningar þeirra verði gerðir upp á gengi Evrópska seðlabankans í október, nær tvöföldu gengi hins íslenska. Kristinn Hallgrímsson lögmaður segir fyrirtækið munu hefja málsókn um leið og færi gefst.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×