Innlent

„Bíðið bara þangað til græningjarnir koma líka til Íslands“

Olíuútboð Íslendinga eykur þrýsting á ríkisstjórn Noregs að leyfa olíuleit á norska hluta Jan Mayen-svæðisins. Andstaða er innan norsku stjórnarflokkanna gegn nýjum vinnslusvæðum á norðurslóðum.

Skiptar skoðanir eru innan hinnar rauðgrænu ríkisstjórnar Noregs um hvaða ný svæði eigi að opna til olíuleitar og Hans Henrik Ramm, sérfræðingur í olíumálum, telur útboð Íslendinga setja stjórnarflokkana í vanda. Þetta gæti orðið þeim pólitískt erfitt.

Olíuframleiðsla Norðmanna náði hámarki fyrir áratug og síðan hefur hratt dregið úr vinnslunni eftir því sem gengur á lindirnar. Olíuiðnaðurinn vill ný svæði.

„Olíuiðnaðurinn hefur fengið meiri áhuga á Drekasvæðinu. Það hefur komið fram í mörgum skýrslum frá þessum geira að menn vilja hefjast handa á Jan Mayen-hryggnum," segir Hans Henrik Ramm, og segir menn telja mikla möguleika þar.

Í umræðu um olíumál í Stórþinginu í síðustu viku vildi hægrimaðurinn Ivar Kristiansen að olíumálaráðherrann Terje-Riis Johansen greindi frá áformum ríkisstjórnarinnar um Jan Mayen-svæðið en fékk ekkert svar. Hann hefði viljað sjá Norðmenn taka höndum saman við Íslendinga.

„Í stað þess að líta á þetta sem vandamál ætti frekar á líta á þetta svæði þannig að það skapi mikla möguleika, einnig fyrir Noreg," segir Ivar Kristiansen. "Ekkert væri betra en að Íslendingar gætu nú líka tekið þátt í alþjóðlegri og innlendri olíu- og gasstarfsemi," segir Ivar.

Hans Henrik Ramm segir að í Noregi sé andstaða meðal græningja við nokkurn veginn allt sem á að framkvæma.

„Þeir vilja helst loka á alla olíuvinnslu. Bíðið bara þangað til þeir koma líka til Íslands," segir Hans Henrik, og segir norska græningja þekkta fyrir að ferðast um til að mótmæla á ýmsum stöðum.




Tengdar fréttir

Spáir því að Íslendingar verði olíuþjóð

Íslendingar eiga eftir að verða olíuþjóð, segir helsti sérfræðingur Noregs í Jan Mayen svæðinu, og líkir því við verðmætustu olíusvæði heims. Nýjustu hljóðbylgjumælingar sem gerðar voru á Drekanum í fyrra lofa góðu og mikill áhugi er meðal olíufélaga að kaupa upplýsingarnar.

Olíuskattar Íslands draga úr áhuga á Drekaútboðinu

Áformuð skattheimta íslenskra stjórnvalda af olíuvinnslu hrekur olíufélög frá því að taka þátt í Drekaútboðinu. Þetta segir forstjóri norsks olíufélags sem spáir því að umsækjendur verði teljandi á fingrum annarrar handar þegar fresturinn rennur út þann 15. maí.

Olíuleit skapar störf norðaustanlands

Fjöldi starfa gæti skapast á norðausturhorni Íslands á næstu árum, verði ráðist í olíuleit á Drekasvæðinu. Bara þyrluþjónusta við olíuborpalla kallar á tugi starfsmanna.

Olían lekur upp úr Drekasvæðinu

Gervihnattamyndir benda til þess að olía leki af hafsbotni og til yfirborðs á bletti sunnarlega á Drekasvæðinu. Þetta kom fram á ársfundi Orkustofnunar í Reykjavík í dag. Bresk-hollenskt fyrirtæki, sem sérhæfir sig í olíu- og málmleit með gervihnöttum, fann olíulekann nýlega en hann þykir styrkja vísbendingar um að olíu sé að finna á Drekanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×