Erlent

Mikil öryggisgæsla á NATO fundi

Guðjón Helgason skrifar

Mikil öryggisgæsla er í Strassborg í Frakklandi vegna leiðtogafundar Atlantshafsbandalagsins sem hefst þar í dag. Ástandið í Afganistan, samskiptin við Rússa og val á nýjum framkvæmdastjóra eru helstu málin á þessum sextíu ára afmælisfundi.

Ekki er aðeins fundað í Strassborg heldur einnig í Kehl í Þýskalandi. Mikið verður um hátíðarhöld enda sextíu ár í ár frá stofnun Atlantshafsbandalagsins. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, situr fundinn fyrir Íslands hönd.

Mörg erfið mál verða til umræðu á fundinum.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, mun kynna nýja stefnu sína í Afganistan og reyna að tryggja stuðning bandalagsríkja við hana. Bandaríkjamenn hafa þegar tilkynnt að fjölgað verði í herliðinu þar.

Samskipti við Rússar verða einnig ofarlaga á baugi. Albönum og Króötum verða formlega boðnir velkomnir í bandalagið. Þá munu Frakkar aftur taka þátt í hernaðarlegri yfirstjórn NATO eftir áratuga fjarveru.

Eitt helsta hitamálið verður þó val á nýjum framkvæmdastjóra bandalagsins en Hollendingurinn Jaap de Hoop Scheffer er að láta af störfum. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, hefur helst verið nefndur í því sambandi en Tyrkir eru alfarið á móti því að hann taki við embættinu. Það er vegna Múhameðsteikningamálinu 2006 og því að útsendingar kúrdískrar sjónvarpsstöðvar í Danmörku hafi ekki verið bannaðar.

Lögregla í Strassborg og Kehl er við öllu búin vegna mótmæla í borgunum meðan á fundinum stendur í dag og á morgun. Til átaka kom milli lögreglu og mótmælenda í Strassborg í gær og notaði lögregla táragas og gúmmikúlur. Tuttugu og fimm þúsund lögreglumenn verða á vakt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×