Innlent

Opinberum störfum fjölgaði um þriðjung

Á Landspítalanum Sameining Borgarspítala og Landspítala 2001 og færsla stöðugilda innan heilbrigðisstofnana í miðlægt launakerfi ríkisins 2006 hefur sín áhrif á tölur um störf hjá ríki og borg.fréttablaðið/vilhelm
Á Landspítalanum Sameining Borgarspítala og Landspítala 2001 og færsla stöðugilda innan heilbrigðisstofnana í miðlægt launakerfi ríkisins 2006 hefur sín áhrif á tölur um störf hjá ríki og borg.fréttablaðið/vilhelm

Samtals 37.400 störf eru hjá hinu opinbera; átján þúsund hjá ríkinu og 19.400 hjá sveitarfélögum. Störfunum hefur fjölgað um um það bil þrjátíu prósent á níu árum.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins.

Spurðist hún fyrir um hve margir starfsmenn væru hjá ríki og sveitarfélögum og hver þróunin hefði verið síðastliðin tíu ár.

Í svari ráðherra kemur fram að ekki liggi fyrir upplýsingar um fjölda starfsmanna, aðeins fjölda starfa. Eru upplýsingar um fjölda stöðugilda hjá ríkinu fengnar úr launavinnslukerfi ríkisins.

Af tölunum má sjá að frá árinu 2000 hefur stöðugildum hjá hinu opinbera fjölgað um 8.700, um 4.000 hjá ríkinu og 4.700 hjá sveitarfélögunum.

Í tvígang á tímabilinu fjölgaði stöðugildum hjá ríkinu stórum, í fyrra sinnið árið 2001 þegar Borgarspítalinn sameinaðist Landspítalanum og aftur árið 2006 þegar stöðugildi innan heilbrigðisstofnana fluttust í miðlægt launakerfi ríkisins.

Eins og áður sagði eru stöðugildi hjá ríki og sveit nú um þriðjungi fleiri en árið 2000. Hefur þeim fjölgað um 3,6 prósent að meðaltali á ári hjá sveitarfélögum og um 3,2 prósent hjá ríkinu. Sé tillit tekið til ofangreindra kerfisbreytinga nemur fjölgunin hjá ríkinu 2,1 prósenti.

Rúmlega 165 þúsund manns voru starfandi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs. Lætur því nærri að um tuttugu prósent allra starfa séu hjá hinu opinbera: ríki eða sveitarfélögum.bjorn@frettabladid.is

Þorgerður K. Gunnardsóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×