Innlent

Ríkisstjórn í ólgusjó

Mynd/Vilhelm Gunnarsson

Eindregin krafa oddvita ríkisstjórnarflokkanna um að væntanleg lausn á Icesave-málinu verði gerð í nafni allrar ríkisstjórnarinnar varð til þess að Ögmundur Jónasson sagði af sér embætti heilbrigðisráðherra í gær.

Ötullega hefur verið unnið að lausn Icesave-málsins síðan formleg viðbrögð Breta og Hollendinga við lögum Alþingis bárust um miðjan september.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins stendur tvennt í þeim. Annars vegar að ríkisábyrgð á lánveitingum nái aðeins til ársins 2024, óháð því hvort lánin hafi þá verið uppgreidd eða ekki.

Hins vegar að í lögunum sé tekið fram að Ísland viðurkenni ekki skyldur sínar til greiðslu og hafi ekki fallið frá rétti sínum til að fá úr því álitamáli skorið.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra bera þá von í brjósti að úr leysist á allra næstu dögum. Þingflokkur Samfylkingarinnar lýsti í gær yfir stuðningi við Jóhönnu í málinu en þingflokksfundur Vinstri grænna hófst seint í gærkvöldi og stóð enn þegar blaðið fór í prentun.

„Nú tek ég það fram að ég hef ekki gefið mér neitt um hver mín afstaða verður í þessu Icesave-máli. Ég vil að það fái þinglega meðferð og þingið komi óbundið að því. Í mínum huga er þetta ekkert smámál; þetta er grundvallaratriði í þessu stóra máli, sem er miklu stærra en ríkisstjórnin og nokkur stjórnmálaflokkur innan veggja þingsins," segir Ögmundur Jónasson í viðtali við Fréttablaðið í dag.

Viðmælendur Fréttablaðsins eru almennt sammála um að ríkisstjórnin standi veikari eftir gærdaginn. Engu að síður eru þingmenn beggja stjórnarflokka einhuga um að halda stjórnarsamstarfinu áfram.

Þing verður sett í dag og fjárlagafrumvarpið kynnt. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er reiknað með rúmlega áttatíu milljarða króna gati á fjárlögum næsta árs. Ríkið þarf að greiða um eitt hundrað milljarða króna í vaxtagjöld á næsta ári.

- bþs, kóp / sjá síður 6, 8 og 10






Fleiri fréttir

Sjá meira


×