Innlent

Vinna við úrbætur á Vesturlandsvegi í fullum gangi

Breki Logason skrifar
Kristján Möller samgönguráðherra.
Kristján Möller samgönguráðherra.
Kristján L. Möller samgönguráðherra segir að úrbætur á Vesturlandsvegi séu í fullum gangi hjá Vegagerðinni. Vísir sagði frá áhyggjum íbúa á Kjalarnesi yfir umferðaröryggi á svæðinu í morgun. Í síðustu viku munaði litlu að tveir ungir piltar yrðu undir flutningabíl. Kristján segist hafa farið á íbúafund á svæðinu þann 1.apríl og daginn eftir hafi hann gengið í málið með Vegamálastjóra. Stefnt er á að setja undirgöng undir veginn og Kristján hefur óskað eftir því að það verði gert sem allra fyrst.

„Ég var staddur á íbúafundi á Kjalarnesi fyrir tveimur dögum og þar hafa mál lítið þokast áfram því miður. Á þeim fundi upplýsti einn borgarfulltrúin sem mætti þar fyrir hönd þingmanns að núna fyrst væri Reykjavíkurborg að gefa út hvaða veglínu mætti fara. Það hefur ekki legið fyrir hvert við mættum fara með veginn," sagði Kristján á opnum fundi Samgöngunefdnar þann 3.apríl síðastliðinn.

Kristján hafði samband við Vísi í kjölfar fréttar okkar í morgun en þar sagðist Marta Guðjónsdóttir formaður hverfaráðs hafa boðað Kristján á íbúafund sem haldinn verður annað kvöld en hann hafi ekki sagt ætla að mæta.

„Ég fékk boð um að mæta á þennan fund þann áttunda júní. Annað kvöld verð ég hinsvegar staddur á Húsavík og það var löngu ákveðið. Ég er til í að mæta á fund hjá þeim hvenær sem er og ræða þessi mál, en ég bara kemst ekki annað kvöld," segir Kristján.

Kristján tekur undir að mikilvægt sé að bæta umferðaröryggi á svæðinu en bendir á að málið hafi staðið upp á Reykjavíkurborg. „Sé þetta gert til framtíðar viljum við hafa þetta þar sem vegurinn mun liggja þegar hann verður breikkaður."

Kristján segir að samráðshópur hafi verið skipaður um þessi mál þar sem fulltrúi frá Reykajvíkurborg eigi sæti. Fyrsti fundur hópsins hafi verið haldinn í morgun. „Það er því allt á fullri ferð og þetta verður gert."

Málið er greinilega víða rætt því Borgarráð fjallaði um það á fundi sínum í morgun. Í frétt um málið á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að borgin taki undir áhyggjur íbúa á Kjalarnesi en á fundi borgarráðs í morgun var samþykkt bókun vegna umferðarmála. Þar var ítrekað mikilvægi þess að Vegagerð ríkisins hraði framkvæmdum við Vesturlandsveg til að auka umferðaröryggi á veginum.

Kristján segist fagna því að borgarráð hafi rætt málið í morgun því það hafi ekki verið á hreinu hingað til hvert framtíðarskipulagi eigi að vera á svæðinu. Aðspurður hvenær farið verði í umræddar framkvæmdir segir Kristján:

„Það er væntanlega ekki gott að fara í framkvæmdir á þessum stað svona um hásumar. Ég hef hinsvegar óskað eftir að það verði gert sem allra fyrst."






Tengdar fréttir

Taka undir með íbúum á Kjalarnesi

Borgarráð tekur undir með íbúum á Kjalarnesi um að brýnt sé að fara í nauðsynlegar úrbætur á Vesturlandsvegi og mikilvægi þess að umferðaröryggismál verði betur tryggð fyrir akandi og gangandi vegfarendur við þessa fjölförnu umferðaræð. Þetta kemur fram í frétt á vef Reykjavíkurborgar. Vísir sagði frá áhyggjum íbúa á Kjalarnesi í morgun en litlu munaði að stórslys yrði á veginum þegar tveir ungr piltar urðu næstum undir flutningabíl þar í síðustu viku.

Krefjast úrbóta á Vesturlandsvegi

Íbúasamtökin á Kjalarnesi ætla að grípa til aðgerða við Vesturlandsveg seinni partinn á morgun. Um táknræn mótmæli verður að ræða en íbúar eru orðnir langrþeyttir á aðgerðarleysi á Vesturlandsvegi. Tveir litlir drengir urðu næstum undir flutningabíl þar í síðustu viku og var það dropinn sem fyllti mælinn. Marta Guðjónsdóttir formaður hverfaráðs Kjalarness hefur boðað til íbúafundar annað kvöld og vill að samgöngunefnd Alþingis láti sjá sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×