Innlent

Krefjast úrbóta á Vesturlandsvegi

Breki Logason skrifar
Marta Guðjónsdóttir formaður hverfaráðs á Kjalarnesi.
Marta Guðjónsdóttir formaður hverfaráðs á Kjalarnesi.
Íbúasamtökin á Kjalarnesi ætla að grípa til aðgerða við Vesturlandsveg seinni partinn á morgun. Um táknræn mótmæli verður að ræða en íbúar eru orðnir langrþeyttir á aðgerðarleysi á Vesturlandsvegi. Tveir litlir drengir urðu næstum undir flutningabíl þar í síðustu viku og var það dropinn sem fyllti mælinn. Marta Guðjónsdóttir formaður hverfaráðs Kjalarness hefur boðað til íbúafundar annað kvöld og vill að samgöngunefnd Alþingis láti sjá sig.

Marta segir að Vesturlandsvegur sé einhver fjölfarnasti vegur landsins þar sem mikið af flutningabílum fari á degi hverjum. Búist sé við að umferð þungaflutninga aukist á næsta ári í tengslum við álverið á Grundartanga. Marta segir að að úrbæturnar snúist fyrst og fremst um undirgöng undir veginn og einhverskonar hraðatakmarkanir.

„Þegar ég heyrði af þessu atviki í síðustu viku ákvað ég að boða strax til íbúafundar í Klébergsskóla. Ég boðaði samgönguráðherra og samgöngunefnd Alþingis en ráðherra hefur sagst ekki koma. Ég vona að samgöngunefnd láti sjá sig," segir Marta.

Málið er orðið ansi heitt á Kjalarnesi en krakkarnir sem þar búa þurfa oftar en ekki að fara yfir götuna til þess að hitta vini sína. Þeri sem urðu vitni að atvikinu í síðustu viku segja að sáralitlu hafi munað að flutningabíllinn hefði ekið á drengina tvo.

„Svörin sem við höfum fengið frá Vegagerðinni og Samgönguráðherra eru að málið sé ekki klárt frá borginni, það er bara ekki rétt."

Marta furðar sig á því að á sama tíma og tilkynnt sé um Vaðlaheiðagöng fyrir marga milljarða sé ekkert gert fyrir íbúa á Kjalarnesi. „Þetta er einn fjölfarnasti vegur landsins og við hér á höfuðborgarsvæðinu fáum mun minna vegafé samanborið við landsbyggðina, við það verður ekkert unað lengur."

Marta hvetur sem flesta íbúa til þess að mæta á fundinn í Klébergsskóla klukkan 20:00 annað kvöld og um leið vonar hún að Samgöngunefnd láti sjá sig og ræði þetta mikilvæga málefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×