Innlent

Samþykki Íra flýtir fyrir Íslandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Líkur hafa aukist á hraðri meðferð á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu eftir að Írar samþykktu Lissabonsáttmálan með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær.

Írar gengu öðru sinni að kjörborðinu í þjóðaratkvæðagreiðslu um Lissabonsáttmálann í gær og samþykktu hann með 67 prósentum atkvæða. En þeir felldu sáttmálan í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir átján mánuðum með sjö prósentustiga mun.

Þegar sáttmálinn var felldur setti það breytingar á uppbyggingu sambandsins og viðræður við væntanleg ný aðildarríki í uppnám. Til að mynda voru viðræður um aðild Króatíu settar á bið, en þær hafa nú þegar hafist að nýju eftir samþykki Íra í dag.

Nú eiga aðeins tvær þjóðir eftir að samþiggja Lissabonsáttmálann; Tékkar og Pólverjar. Forseti Póllands hefur beðið ákvörðunar Íra og mun væntanlega staðfesta sáttmálann á næstu dögum. En forseti Tékklands hefur sagt að sáttmálinn drægi úr áhrifavaldi einstakra aðildarríkja og hefur enn ekki staðfest sáttmálann þótt báðar deildir tékkneska þingsins hafi staðfest hann.

Ef Írar hefðu fellt sáttmálann er hins vegar víst að viðræður Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu hefðu getað dregist á langinn, enda margar aðildarþjóðir á móti því að fjölga þjóðum í sambandinu án sáttmálans. Þeir sem eru bjartsýnastir á gang viðræðna hafa talað um að þær gætu tekið um tvö ár, en hingað til hafa Finnar fengið skjótasta inngöngu en þeirra umsókn var afgreidd á tveimur árum og níu mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×