Innlent

Fordómar gagnvart iðnaðarmönnum í pólitík

Húsasmíðameistarinn Óskar Bergsson er sakaður um að hafa beitt pólitískum þunga í málinu.
Húsasmíðameistarinn Óskar Bergsson er sakaður um að hafa beitt pólitískum þunga í málinu. MYND/ANTON BRINK
Líkt og fram kom í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi hafa framsóknarmenn í borginni verið sakaður um spillingu varðandi útboð á uppbyggingu á brunareitnum svokallaða á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Verkið var boðið út í síðasta mánuði og átti verktakafyrirtækið Fonsi lægsta tilboðið. Eykt sem átti næst lægsta tilboðið fékk hins vegar verkið.

Í Kastljósi í kvöld kom fram að áður en í þetta útboð var farið var haldið lokað útboð þar sem 16 fyrirtæki tóku þátt. Ellefu þeirra áttu að fara í svokallað forval. Verktakafyrirtækið Eykt komst ekki áfram í þessu útboði en skyndilega var frá þessu fallið.

„Þarna var beitt mjög pólitískum þunga til að breyta þessu ferli um hverjir áttu að taka þátt. Óskar Bergsson beitti sér fyrir því að fallið yrði frá forvalinu," sagði Stefán Jóhann Stefánsson fulltrúi Samfylkingarinnar í Innkauparáði Reykjavíkurborgar í samtali við Kastljós í kvöld.

Stefán sagði að menn hafi snúið við í miðri á en lengi vel hafi þeir staðið úti í ánni og leitað að tylliástæðu til þess að snúa við. Það hafi haft í för með sér að útboðinu seinkaði. Hann segir pólitísk afskipti hafa breytt ferlinu.

Tengsl Óskars og Eyktar hafa áður verið í umræðunni og hann hefur verið sakaður um að ganga erinda fyrirtækisins. Hann hefur meðal annars neitað að gefa upp hvort fyrirtækið hafi styrkt sig í prófkjöri.

Óskar sagði í Kastljósinu að þetta væri týpískur leikur minnihlutans í að gera allt tortryggilegt. Forvalið hafi verið gallað og því hafi verið ákveðið að fara í opið útboð. Niðurstaðan hafi verið sú að Eykt hafi verið í öðru sæti en fyrirtækið sem var með lægsta tilboðið hafi ekki uppfyllt skilyrði.

Óskar sagði ennfremur að Eykt væri eitt stærsta verktakafyrirtækið í borginni sem hefði styrkt nánast hvert framboð sem hafi komið fram í borgstjórnarkosningunum. Sitt prófkjör hafi hinsvegar verið keyrt áfram af ungmennafélagsandanum og hafi ekki verið kostnaðarsamt.

Hann sagðist velta því fyrir sér hvort þetta væru fordómar gagnvart iðnaðarmönnum sem taka þátt í stjórnmálum. Hann hafi unnið hjá fyrirtækinu fyrir 16 árum síðan og það hafi aldrei haft nein áhrif á sína ákvarðanatökur er viðkæmu fyrirtækinu.




Tengdar fréttir

Sakar Framsókn um pólitíska spillingu í útboði

Framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Fonsi sakar framsóknarmenn um pólitíska spillingu og sóðaskap í tengslum við útboð á framkvæmdum í miðbæ Reykjavíkur. Hann útilokar ekki að málið verði kært.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×