Erlent

Eftirlitsmenn SÞ mega skoða auðgunarstöð á Úrani

Eftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna er velkomið að skoða nýja auðgunarstöð á úrani sem Íranar hafa komið sér upp. Þetta segir Mahmoud Ahmadinejad forseti landsins. Íranar voru harðlega gagnrýndir í gær af leiðtogum Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands eftir að upplýst var að þeir hefðu leynilega komið sér upp nýrri auðgunarstöð á úrani.

Leiðtogarnir sökuðu þá um að hafa byggt stöðina í trássi við reglur Sameinuðu þjóðanna. Forseti Írans fullyrðir að Íranar hafi farið eftir leikreglunum enda beri þeim ekki að upplýsa um stöðina fyrr en sex mánuðum áður en hún tekur til starfa. Forsetinn segir nýju stöðina ekki verða tilbúna að fullu fyrr en eftir eitt og hálft ár.

Önnur ríki óttast að tilraunir Írana með úran miði að því að gera þeim kleift að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Íranar hafa neitað því og að tilgangurinn sé að búa til eldsneyti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×