Innlent

Óstöðugleiki Akkilesarhællinn

Áfall Íslenskt atvinnulíf stendur á styrkum stoðum þrátt fyrir mikið áfall, sagði Jóhanna Sigurðardóttir á fundi um samkeppnishæfni í gær.Fréttablaðið/GVA
Áfall Íslenskt atvinnulíf stendur á styrkum stoðum þrátt fyrir mikið áfall, sagði Jóhanna Sigurðardóttir á fundi um samkeppnishæfni í gær.Fréttablaðið/GVA

Ísland dettur niður um sex sæti í árlegri könnun Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum (WEF), á samkeppnishæfni landa. Ísland er í 26. sæti af 133 ríkjum, en var í 20. sæti á síðasta ári. Óstöðugleiki í efnahagslífinu er helsti veikleiki Íslands.

Ástæður þess að Ísland hrapar niður listann tengjast einkum hruninu, að því er fram kom í erindi Irene Mia, framkvæmdastjóra hjá WEF, á fundi um samkeppnishæfni og endurreisn sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Háskóli Íslands stóðu fyrir í gær.

Þegar einstakir liðir eru skoðaðir sérstaklega er Ísland í 119. sæti af 133 þegar litið er til stöðugleika í efnahagslífinu, og 85. sæti þegar metið er hversu þróaður fjármálamarkaðurinn hér á landi er.

Mia sagði ýmsa þætti þó geta hjálpað Íslandi í að byggja upp samkeppnishæfni landsins í kjölfar kreppunnar. Landið skori hátt þegar heilbrigðiskerfið og menntakerfið séu skoðuð, og starfsfólk hér sé almennt vel þjálfað og vel menntað.

Þrátt fyrir mikið áfall stendur íslenskt atvinnulíf á sterkum stoðum, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á fundinum í gær. Þar var kynnt sérstök áætlun ríkisstjórnarinnar byggð á starfi starfshóps sem skoðaði sóknarfæri landsins til ársins 2020. Stefnt er að því að Ísland komist hóp tíu samkeppnishæfustu landa heims. - bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×