Innlent

Bæta aðgengið fyrir fatlaða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi segir að aðkoman að Egilshöll hafi háð starfsemi hússins.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi segir að aðkoman að Egilshöll hafi háð starfsemi hússins.
Framkvæmdir standa nú yfir við Egilshöll í Grafarvogi, sem miða að því að auka nýtingu hússins og bæta íþróttaaðstöðu þar.

Kjartan Magnússon, formaður Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar segir að framkvæmdum við frístundaheimili fatlaðra sé lokið og starfsemi hafin. Þá séu framkvæmdir vegna bætts aðgengis og frágangs á bílastæðum langt komnar og verði að mestu lokið um næstu mánaðamót. Stefnt sé að því að stækkuð og endurbætt aðstaða fyrir fimleikastarfsemi verði tilbúin fyrir áramót.

Framkvæmdirnar eru í samræmi við samkomulag Reykjavíkurborgar við rekstrarfélag Egilshallar um afnot af mannvirkinu. Samkomulagið tryggir áframhaldandi öfluga íþróttastarfsemi í höllinni á vegum Reykjavíkurborgar. Kjartan segir að við samningsgerðina hafi Reykjavíkurborg lagt sérstaka áherslu á frágang bílastæða og aðgengi hússins. „Aðkoma að Egilshöllinni hefur verið óviðunandi allt frá opnun hússins árið 2002. Þetta hefur háð starfsemi hússins, meðal annars frístundaheimili fyrir fötluð börn og ungmenni úr hverfinu og ég er því mjög ánægður að nú hilli undir lok framkvæmdanna. Ég geri mér góðar vonir um að samkomulagið muni auka nýtingu hússins og efla íþrótta- og æskulýðsstarf í borginni," segir Kjartan.

Kjartan segir að með samkomulaginu og yfirstandandi framkvæmdum hafi tekist að tryggja áframhaldandi íþróttastarfsemi í húsinu sem hafi verið í óvissu eftir að fyrri rekstraraðili hússins komst í þrot síðastliðinn vetur. Að auki tryggi samkomulagið framtíðaraðstöðu fyrir Ungmennafélagið Fjölni en þess í stað hefur félagið fallið frá fyrirætlunum um uppbyggingu íþróttaaðstöðu í hverfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×