Innlent

Segir fjárveitinguna vonbrigði

Forstjórar norrænu samkeppnisstofnananna eru sammála um að efla þurfi eftirlit í kreppu.
fréttablaðið/gva
Forstjórar norrænu samkeppnisstofnananna eru sammála um að efla þurfi eftirlit í kreppu. fréttablaðið/gva

 „Lækkun á fjárveitingum sem ráðgerð er í fjárlagafrumvarpinu veldur að sjálfsögðu vonbrigðum," segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins (SE). Gert er ráð fyrir 285 milljóna fjárveitingu í fjárlögum fyrir árið 2010 sem jafngildir þrjátíu milljóna króna lækkun að raungildi milli ára.

Samkeppniseftirlitið hefur í fjárlagaferlinu lagt fram tillögur sem miða að því að efla stofnunina. Á þessu ári voru settar fram óskir um auknar fjárveitingar og Páll Gunnar hefur bent á að SE sé undirmannað í ljósi sífellt aukinna verkefna.

„Það er sérstaklega mikilvægt á tímum efnahagsþrenginga að standa vörð um samkeppnina og beita í því skyni ströngum samkeppnisreglum, í því skyni að hraða efnahagsbata," segir Páll Gunnar. „Þetta er kjarninn í sameiginlegri stefnu norrænna samkeppnisyfirvalda, sem kynnt var hér á landi um miðjan síðasta mánuð."

Í skoðanakönnun sem unnin var í sumar fyrir SE telja 78 prósent stjórnenda fyrirtækja og 91 prósent almennings að veita þurfi fyrirtækjum og opinberum aðilum meira samkeppnislegt aðhald.

Páll Gunnar segir að SE muni halda áfram að tala fyrir eflingu þess. „Það hvernig úr þessu fjármagni spilast verður síðan að koma í ljós," segir hann um mannahald og hugsanlegar uppsagnir vegna niðurskurðarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×