Innlent

Vilja að dómarinn víki sæti

Árni m. Mathiesen. Sem settur dómsmálaráðherra skipaði Árni Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara.
Árni m. Mathiesen. Sem settur dómsmálaráðherra skipaði Árni Þorstein Davíðsson í embætti héraðsdómara.

 Lögmenn Árna M. Mathiesen og íslenska ríkisins kröfðust þess fyrir dómi í gær að Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari viki sæti í skaðabótamáli sem Guðmundur Kristjánsson hæstaréttarlögmaður hefur höfðað vegna skipunar Þorsteins Davíðssonar í embætti héraðsdómara.

Guðmundur sótti um dómaraembætti við Héraðsdóm Norðurlands eystra árið 2007 og þótti mjög vel hæfur, eins og tveir aðrir umsækjendur. Árni M. Mathiesen, þá settur dómsmálaráðherra vegna vanhæfis Björns Bjarnasonar, skipaði hins vegar Þorstein Davíðsson í embættið. Þorsteinn var metinn tveimur hæfisflokkum neðar en hinir þrír. Umboðsmaður Alþingis hefur gefið það álit sitt á málinu að annmarkar hafi verið á öllum þáttum skipunarinnar og að hæfasti umsækjandinn hafi ekki verið valinn.

Guðmundur fór í kjölfarið í skaðabótamál, bæði gegn ríkinu og Árna sjálfum. Hann krefst fimm milljóna króna í bætur. Segir hann í stefnu að Árni hafi með ráðningunni sýnt honum takmarkalausa lítilsvirðingu, niðurlægt hann opinberlega, vegið að starfsheiðri hans og með valdníðslu vegið að æru hans og persónu.

Karl Axelsson og Skarphéðinn Þórisson, lögmenn ríkisins og Árna, kröfðust þess í gær að Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari viki sæti við meðferð málsins vegna viðtals sem hún veitti Ríkisútvarpinu þegar málið var í hámæli í janúar 2008.

Í viðtalinu ræddi Sigríður á almennum nótum um það að almenningur þyrfti að geta treyst því að staðið væri faglega að dómaraskipunum. Þótt ráðherra hefði endanlegt skipunarvald þyrfti hann að halda sig innan eðlilegra marka og fara eftir faglegum sjónarmiðum. Lögmenn stefndu telja að andinn í viðtalinu hafi verið slíkur að hann gefi tilefni til að krefjast þess að hún víki. Lögmaður Guðmundar mótmælti kröfunni. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×