Innlent

Fólk hvatt til að leggja tímanlega af stað

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Mynd/Daníel Rúnarsson
Búast má við mikilli umferð um landið í dag þegar ein mesta ferðahelgi sumarsins gengur í garð. Umferðarstofa hvetur fólk til að leggja fyrr af stað hafi það kost á því.

Dagskrá helgarinnar er þéttskipuð um allt land og úr nógu að velja fyrir þá sem hyggjast ferðast um landið. Á Akranesi verða írskir dagar haldnir í áttunda sinn. Ólafsvíkurvaka verður haldin á Snæfellsnesi, Pollamót Þórs fer fram á Akureyri, humarhátíðin verður á sínum stað á Höfn og á suðurlandi verða haldir hafnardagar í Ölfusi.

Veðurspá er hin fínasta. Helgarveðrið verður milt og gott um allt land þó lítið fari fyrir sólinni. Frá Veðurstofunni fengust þær upplýsingar að veðrið verði einna best í Reykjavík og á Breiðafirði í dag. Þá verður fínt verður á suðurlandi. Á morgun fer þó að rigna sunnanlands en þurrt verður fyrir norðan. Þá verður veðrið best á suður- og vesturlandi á morgun en á sunnudaginn verður ákjósanlegast að vera fyrir norðan.

Lögreglan verður með aukið eftirlit á Suðurlands- og Vesturlandsvegi um helgina og notast verður við sérstaka þyrlu við umferðareftirlit á sunnudaginn. Umferðarstofa hvetur fólk til að leggja fyrr af stað í dag hafi það kost á því, eða síðar í kvöld og dreifa þannig umferðarálaginu.

Mikil umferðarteppa skapaðist á Suðurlandsvegi um síðustu helgi, sem leiddi til þess að langar bílaraðir mynduðust. Að margra mati skapaðist teppan þar sem tvær akreinar verða að einni við lok 2+1 kaflans. Til að minnka hættu á að það endurtaki sig um helgina og næstu helgar vill Umferðarstofa í samráði við Vegagerð og lögreglu hvetja ökumenn til að aka á hægri akreininni. Með því móti skapast ekki teppa eins og raun bar vitni síðastliðna helgi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×