Innlent

Þremur sendiráðum lokað

Aukin framlög.
Þremur sendiráðum verður lokað á næsta ári en framlög til annarra hækkuð um 6-7 prósent vegna gengisþróunar
Aukin framlög. Þremur sendiráðum verður lokað á næsta ári en framlög til annarra hækkuð um 6-7 prósent vegna gengisþróunar

Sendiráð Íslands í Róm og Pretoríu í Suður-Afríku verða lögð niður um áramót og einnig Fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Samtals kostaði rekstur þessara stofnana ríkissjóð um 162 milljónir króna á síðasta ári. Framlög til annarra sendiráða verða hins vegar hækkuð um 6 til 7 prósent vegna gengisáhrifa en stór hluti útgjalda við rekstur þeirra er í erlendri mynt.

Framlög til Varnarmálastofnunar eiga að lækka um 21,5 prósent á næsta ári. Stofnunin fær 963 milljónir króna til ráðstöfunar en hafði 1.227 milljóna króna fjárheimildir samkvæmt fjárlögum síðasta árs. Í ræðu forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi kom fram að leggja eigi stofnunina niður á árinu 2010.

Samdráttur hjá Þróunarsamvinnustofnun verður 16,1 prósent og fara framlög úr 1,6 milljörðum í fyrra í tæplega 1,4 milljarða næsta ár. Framlög til annarra þróunarmála og alþjóðlegs hjálparstarfs verða skert um 24,3 prósent. Til þeirra á að verja um 1.550 milljónum á næsta ári í stað 2.000 milljóna á þessu ári.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×