Erlent

Eldsneyti sett á eldflaugina

Obama ræddi við forseta Suður-Kóreu í London og taldi nauðsynlegt að koma á friði og stöðugleika á Kóreuskaga.Fréttablaðið/ap
Obama ræddi við forseta Suður-Kóreu í London og taldi nauðsynlegt að koma á friði og stöðugleika á Kóreuskaga.Fréttablaðið/ap

Norður-Kóreumenn hafa byrjað að setja eldsneyti á eldflaug sem þeir áforma að skjóta út yfir Kyrrahaf á næstunni. Þetta fullyrðir Bandaríkjaher. Hægt er að skjóta eldflauginni á loft þremur til fjórum dögum eftir að byrjað er að dæla á hana eldsneyti.

Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi málið við Lee Myun-bak, forseta Suður-Kóreu, í London í gær, þar sem G20-fundurinn er haldinn. Þeir sammæltust um þörfina á samræmdum viðbrögðum yrði af skotinu. Obama hefur sagt að skjóti Norður-Kóreumenn eldflauginni á loft verði litið á það sem ögrun sem kalli á viðbrögð öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Norður-Kóreumenn segjast með skotinu ætla að koma gervihnetti á braut um jörðu. Aðrar þjóðir telja tilganginn með skotinu fyrst og fremst vera að prófa nýja tegund langdrægra flugskeyta.

Skjóta á flauginni yfir Japan og hafa Japanar hótað því að skjóta hana niður þegar hún berst að ströndum þeirra. Þeir munu þegar hafa gert varúðarráðstafanir til að bregðast við því ef brak úr flauginni skyldi falla þar til jarðar.

Norður-Kóreumenn segja að það myndi jafngilda stríðsyfirlýsingu að skjóta flaugina niður og hóta því að eldi og brennisteini muni rigna yfir Japan verði það gert.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×