Enski boltinn

Robinho sætir rannsókn vegna nauðgunar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robinho, leikmaður Manchester City.
Robinho, leikmaður Manchester City. Nordic Photos / AFP
Lögreglan í Bretlandi hefur yfirheyrt Brasilíumanninn Robinho vegna rannsóknar á nauðgun sem mun hafa átt sér stað á skemmtistað í Leeds fyrir tveimur vikum síðan.

Robinho hitti lögregluna í gær en talsmaður hans sagði að það hefði verið fyrirfram ákveðinn fundur.

Átján ára gömul stúlka heldur því fram að henni hafi verið nauðgað á skemmtistaðnum og stendur rannsóknin nú yfir.

Chris Nathaniel, talsmaður Robinho, segir að Robinho neiti staðfastlega sök og muni veita lögreglunni fulla samvinnu í þessu máli.

Lögreglan hafi upphaflega ætlað að bíða þess að Robinho sneri aftur til Englands með liði sínu úr æfingaferð til Portúgals. En eins og frægt er fór Robinho skyndilega til Brasilíu í einkaerindum og þurfti því lögreglan að bíða þar til að hann kæmi aftur til Manchester þaðan.

Lögregluyfirvöld hafa staðfest að ónefndur maður hafi verið handtekinn í gær og svo verið sleppt gegn tryggingu. Lögreglan vildi þó ekki staðfesta að um Robinho væri að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×