Innlent

Húsvíkingar vilja framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa

Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á löngum fundi í gærkvöldi með öllum atkvæðum gegn einu að stefna að því að framlengja viljayfirlýsingu við Alcoa um álver við Húsavík. Nú þegar aðeins tvær vikur eru þar til viljayfirlýsingin rennur út hafa engin skýr svör borist frá ríkisstjórninni um hvað hún vilji gera og ráðherrar hafa enn ekki orðið við bón sveitarfélagsins um fund um málið.

Átta sveitarstjórnarfulltrúar af níu styðja framlengingu viljayfirlýsingarinnar. Aðeins fulltrúi vinstri grænna er á móti. Viljayfirlýsinging, sem undirrituð var fyrir þremur árum, er milli ríkisstjórnarinnar, Norðurþings og Alcoa og fjallar um að kanna arðsemi þess að reisa álver í landi Bakka.

Í samþykkt meirihluta sveitarstjórnarinnar, sem gerð var á fjögurra klukkustunda löngum fundi í gærkvöldi, segir að verkefnið muni án efa hafa mikil og góð samfélagsáhrif í Þingeyjarsýslum og snúa viðvarandi fólksfækkun til betri vegar. Fulltrúar sveitarstjórnar hafi ávallt verið opnir fyrir því að aðrar hugmyndir séu skoðaðar samhliða stóriðju á Bakka.

Staðreyndin sé hinsvegar sú að þrátt fyrir miklar umræður og ítarlegar athuganir, hafa aðrir raunhæfir kostir ekki litið dagsins ljós. Vill sveitarstjórn Norðurþings því vinna að framlengingu viljayfirlýsingar sem sé ásættanleg fyrir alla málsaðila. Í því felist að rannsóknarboranir á Þeistareykjum verði kláraðar, orkumagn og afhendingartími staðfestur og ákvörðun um byggingu stóriðju tekin.

Sveitarstjórnin óskaði fyrir nokkru eftir fundi með ríkisstjórninni um málið en ráðherrar hafa ekki enn séð sér fært að finna tíma fyrir slíkt. Bergur Elías Ágústsson, sveitarstjóri Norðurþings, segir þó að þeir séu í góðu sambandi við iðnaðarráðuneytið. Engin skýr svör hafi hins vegar borist um afstöðu ríkisstjórnarinnar til framlengingar viljayfirlýsingarinnar við Alcoa.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×