Enski boltinn

City mun sekta Robinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robinho í leik með Manchester City.
Robinho í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images

Mark Hughes hefur nú staðfest að Manchester City mun sekta Brasilíumanninn Robinho fyrir að fara í óleyfi frá æfingabúðum liðsins í Portúgal í síðustu viku.

Robinho fór skyndilega með flugi til Brasilíu og tilkynnti svo Hughes knattspyrnustjóra eftir á að hann væri að sinna fjölskyldumálum. Talið er líklegt að hann hafi einfaldlega verið að halda upp á afmælið sitt.

„Ég sagði Robby frá stöðu mála og að ætlun okkar væri að sekta hann," sagði Hughes í samtali við enska fjölmiðla.

Sumir fjölmiðlar höfðu haldið því fram að Robinho myndi sleppa við refsingu en Hughes sagði það þvælu.

Talið er líklegt að Robinho verði sektaður um tveggja vikna laun eða 200-250 þúsund pund.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×