Innlent

Sömdu um aðstoð fyrir atvinnuleitendur

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gissur Pétursson, forstöðumaður Vinnumálastofnunar. Mynd/ Vilhelm.
Gissur Pétursson, forstöðumaður Vinnumálastofnunar. Mynd/ Vilhelm.
Vinnumálastofnun, KVASIS, samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hafa gert samstarfssamning um náms- og starfsráðgjöf fyrir atvinnuleitendur. Á vegum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva starfa náms- og starfsráðgjafar, sem munu með þessum samningi taka þátt í að ná til atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hvetja þá til virkni.

„Atvinnuleysi er nú yfir 7% á landsmælikvarða, en mismunandi eftir svæðum. Mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þörfin fyrir náms- og starfsráðgjöf hefur aukist mjög mikið án þess að fjárveitingar hafi aukist í sama mæli til að mæta ráðgjafaþörfinni á vegum Vinnumálastofnunar," segir í tilkynningu frá Vinnumálastofnun.

Þar segir jafnframt að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hafi á grundvelli samnings ASÍ og SA við menntamálaráðuneytið greitt fyrir náms- og starfsráðgjöf hjá símenntunarmiðstöðvum. Umfang þess starfs séu um 7 föst stöðugildi náms- og starfsráðgjafa á 10 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum um allt land . Auk þess hafi verið svigrúm til að greiða fyrir meiri vinnu námsráðgjafa eftir þörfum á hverju svæði fyrir sig. Það megi því reikna með að sú aukning sem verði í náms- og starfsráðgjöf með þessum samningi sé á bilinu 7-9 þúsund einstaklingsviðtöl á ársgrundvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×