Innlent

Jóhanna segir sjálfstæðismenn haldna þráhyggju

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir segir tillögur sjálfstæðismanna og framsóknarmanna vera ábyrgðarlausar og skammsýnar.
Jóhanna Sigurðardóttir segir tillögur sjálfstæðismanna og framsóknarmanna vera ábyrgðarlausar og skammsýnar.
Tillögur Sjálfstæðismanna í skattamálum bera vott um ábyrgðarleysi og skammsýni, sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ í dag. Hún sagði að vegna mistaka Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks við stjórn efnahagsmála í ríkisstjórnartíð þessara flokka geti hún ekki alltaf tekið gagnrýni þessa flokka alvarlega nú.

„Mér finnast tillögur þeirra bera vott um ábyrgðaleysi og skammsýni eins og til að mynda þráhyggja Sjálfstæðisflokksins um að skattleggja inngreiðslur lífeyrissjóðanna. Tillögur Sjálfstæðisflokksins í sinni upprunalegri mynd voru tillögur um að skerða þær skatttekjur sem börnin okkar, barnabörnin og komandi kynslóðir eiga rétt á í framtíðinni í stað þess að við sjálf leysum þann vanda sem okkar kynslóð hefur skapað. Tillögur um að seðja okkur sjálf með því að éta útsæðið. Svona gerir maður ekki," sagði Jóhanna.

Jóhanna segir að hægt sé að hafa efasemdir um það hvernig sjálfsgagnrýni sé háttað í Sjálfstæðisflokknum þegar litið er á fjárlagatillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna. „Þar leggja þeir til að markaðnum verði treyst fyrir nánast öllum stofnunum ríkisins. Og þeir leggja til að Landsbankinn verði einkavæddur strax. Þrátt fyrir banka- og gjaldeyrishrun stendur trúin á óskeikulleika markaðarins óhögguð. Það er ekkert frávik frá nýfrjálshyggjunni á þeim bænum - en það má aldrei verða að þjóðin kalli hana yfir sig á ný," sagði Jóhanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×