Innlent

Telja bæjarráðsformann án umboðs

 Magrét Jónsdóttir hafnar fullyrðingum fyrrum félaga um að hana skorti umboð sem formaður bæjarráðs.
Fréttablaðið/Vilhelm
Magrét Jónsdóttir hafnar fullyrðingum fyrrum félaga um að hana skorti umboð sem formaður bæjarráðs. Fréttablaðið/Vilhelm

Bæjarfulltrúar Álftaneslistans vilja að Margrét Jónsdóttir segi af sér sem formaður bæjarráðs.

Margrét sagði í sumar skilið við félaga sína í bæjarstjórnarhópi Á-listans og er nú óháð. Í samvinnu við bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks samþykkti Margrét að segja Sigurði Magnússyni af Á-listanum upp störfum sem bæjarstjóri.

Á bæjarráðsfundi á fimmtudag átöldu fyrrum félagar Margrétar hana fyrir að leiða fulltrúa Sjálfstæðisflokksins til valda. „Ljóst er að Margrét Jónsdóttir er gengin í eina sæng með Guðmundi G. Gunnarssyni og félögum,“ sögðu fulltrúar Á-listans og bæta því við að Margrét sé skuldbundin þeim íbúum sem veittu henni brautargengi á vegum Álftaneshreyfingarinnar og til að standa vörð um málefni sem hreyfingin standi fyrir.

„Jafnframt skal vakin athygli á því að Margrét Jónsdóttir hefur verið umboðslaus frá 27. júlí 2009 í öllum þeim embættum sem hún situr í kosin af Á-lista, meðal annars sem formaður bæjarráðs og þarf hún því að segja af sér þessum embættum,“ sögðu þau Kristín Fjóla Bergþórsdóttir og Sigurður Magnússon.

Þessu hafnaði Margrét í bókun á bæjarráðsfundinum. „Ég sit í öllum tilfellum í umboði bæjarstjórnar og á meðan bæjarstjórn breytir ekki því umboði stendur það. Ég vísa því á bug þessum orðum fulltrúa Á-lista og tel þau ekki svara verð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×