Innlent

Ólafur og Þorvaldur úr skólastarfi

Aðstandendur skólans Edda Huld, Þorvaldur og Jenný Guðrún. Á myndina vantar Ólaf. fréttablaðið/GVA
Aðstandendur skólans Edda Huld, Þorvaldur og Jenný Guðrún. Á myndina vantar Ólaf. fréttablaðið/GVA

Bæði Ólafur Stefánsson handknattleiksmaður og Þorvaldur Þorsteinsson, rithöfundur og myndlistarmaður, hafa ákveðið að vera ekki í hópi eigenda nýs grunnskóla sem á að vera í húsnæði gömlu Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg. „Þetta var enginn hvellur,“ segir Þorvaldur og útskýrir að vera Ólafs í Þýskalandi, þar sem hann leikur handbolta, hafi ráðið því að aðkoma hans yrði fremur lítil. Þorvaldur sjálfur segist svo vilja halda sig við ritstörf, það sé hans heimavöllur, en hann sé þess fullviss að þær Jenný Guðrún Jónsdóttir kennari og Edda Huld Sigurðardóttir, fyrrverandi skólastjóri Ísaksskóla, muni sjá til þess að skólinn verði til fyrirmyndar en þau fjögur hafa staðið að undirbúningi skólans sem fengið hefur nafnið Menntaskólinn.

Þorvaldur útbjó námskrá fyrir skólann og segist hann vilja fá að fylgjast með því starfi sem þar fer fram og veita liðsinni þótt hann komi ekki að honum sem eigandi eins og fyrst stóð til. Skólinn átti einnig upphaflega að taka til starfa í haust en enn er ekki búið að afgreiða umsókn hans úr menntamálaráðuneytinu. „Hvort sem skólinn tekur til starfa um áramót eða næsta haust þá verður þar gott starf,“ segir Þorvaldur. Ekki náðist í Ólaf, Eddu eða Jennýju við vinnslu fréttarinnar.- kdk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×