Innlent

Segja ríkið ekki standa við samkomulag um húsaleigubætur

Halldór Halldórsson formaður sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson formaður sambands íslenskra sveitarfélaga.

Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var um sl. mánaðamót, var m.a. fjallað um húsaleigubætur og fjárvöntun vegna hlutar ríkisins í húsaleigubótum. Á fundinum var upplýst að fjárvöntunin vegna ársins 2008 er um 147 m.kr. og miðað við fjárheimildir í fjárlögum ársins 2009 mun vanta um 229 m.kr. upp á að ríkissjóður standi við samkomulag ríkissjóðs og sambandsins frá 7. apríl 2008 um fjárhæðir húsaleigubóta og greiðsluhlutfall ríkis og sveitarfélaga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar seir einnig að á stjórnarfundinum var eftirfarandi samþykkt gerð, og hefur hún verið send forsætisrðaherra, félags- og tryggingarmálaráðherra og samgönguráðherra:

„Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga átelur það harðlega að ríkið hafi brotið samkomulag sambandsins annars vegar og félags- og tryggingamálaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins hins vegar frá 7. apríl 2008 um skiptingu kostnaðar vegna húsaleigubóta. Fyrir liggur að sveitarfélögin þurftu á síðasta ári að leggja fram aukalega 103 m.kr. til almennra húsaleigubóta og 44 m.kr. vegna sérstakra húsaleigubóta, eða samtals 147 m.kr. fyrir ríkið, svo unnt yrði að standa við ákvæði laga og reglugerða um rétt fólks til óskertra húsaleigubóta. Þessa skuld ber ríkinu að greiða sveitarfélögum nú þegar.

Með hliðsjón af fjárheimildum í fjárlögum ríkisins á þessu ári verður ekki annað séð en að ríkið hyggist áfram brjóta samkomulag aðila. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum vantar a.m.k. 229 m.kr. framlag frá ríkinu svo standa megi við ákvæði samkomulagsins. Sveitarfélögin geta ekki við núverandi aðstæður lagt fram þetta fjármagn fyrir ríkið, til viðbótar um 1,3 ma.kr. sem áætlað er að þau verji til húsaleigubóta á þessu ári. Ef ríkisvaldið hyggst ekki breyta fyrirliggjandi fjárheimild þá verður að ætla að viðkomandi ráðuneyti beiti sér fyrir lækkun húsaleigubóta sem þessari fjárvöntun af ríkisins hálfu nemur. Slík lækkun mun koma sér mjög illa fyrir það fólk sem nauðsynlega þarf á þessum húsnæðisstuðningi að halda, sérstaklega í núverandi efnahagsþrengingum.

Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga telur afar óæskilegt að lækka húsaleigubætur og beinir því til ríkisstjórnar Íslands að hún grípi til tafarlausra ráðstafana svo fjármálaráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti standi við ákvæði framangreinds samkomulags."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×