Íslenski boltinn

Gunnar Odds: Heppnir að tapa ekki stærra

Sólmundur Hólm skrifar
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar.
Gunnar Oddsson, þjálfari Þróttar.

„Það er lítið hægt að segja eftir svona leik," sagði niðurlútur Gunnar Oddsson eftir að lærisveinar hans hlutu 6-0 skell á heimavelli sínum í kvöld gegn Stjörnunni.

„Strax eftir að við fengum fyrsta markið á okkur misstu menn trúnna á þetta. Fram að því fannst mér svo sem ekki mikið í kortunum hjá þeim. Við vissum þó að þessi föstu atriði væru hættuleg hjá þeim. Þessi innköst," sagði Gunnar og á þá við flikk innköst Steinþórs Freys Þorsteinssonar en upp úr þeim komu tvö marka Stjörnunnar.

Þróttarar komu eilítið beittari úr búningsklefum inn í seinni hálfleik. „Við fórum við að færa okkur framar á völlinn en þeir eru með skæða menn fram á við og nýttu sér það. Við erum í raun heppnir að tapa ekki stærra," sagði Gunnar.

Næsti leikur Þróttar er við KR í Frostaskjóli á sunnudaginn. „Það er ekki verið að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Þetta stefnir í töff byrjun hjá okkur," sagði Gunnar og bætti við: „Við verðum að grafa djúpt eftir okkar vopnum en vonandi finnum við þau fyrir sunnudaginn."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×