Innlent

Lögreglan nýtur afgerandi trausts

Mynd/Pjetur

Lögreglan nýtur afgerandi trausts í nýrri skoðanakönnun MMR og segjast tæplega 81 prósent aðspurðra bera mikið traust til lögreglunnar. Traust til Háskóla Íslands mælist tæplega 70 prósent. Bankakerfið situr sem fyrr á botninum hvað traust almennings áhrærir, en tæp 3 prósent segjast bera mikið traust til þess.

Könnunin fór fram dagana 9. til 14. september. Í desember 2008 sögðu 75,7 prósent bera mikið traust til lögreglu og 76,9 prósent í maí síðastliðnum. Samkvæmt könnun MMR bera nú 80,9 prósent landsmanna mikið traust til lögreglumanna.

2,9 prósent segjast bera mikið traust til bankakerfisins en 80 prósent bera lítið traust til þess. Það er svipað og í desember í fyrra.

Traust til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins minnkar verulega, stendur nú í 5,5 prósentum en fór hæst í 17,8 prósent í desember 2008. Að sama skapi hefur fjölgað verulega í hópi þeirra sem segist bera lítið traust til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en 65,3 prósent segjast bera lítið traust til sjóðsins nú samanborið við 38,7 prósent í desember 2008 og 50,0 prósent í maí 2009.

Í desember síðastliðnum sögðust 74,1 prósent bera lítið traust til Seðlabankans en nú segjast 51,2 prósent bera lítið til traust til bankans. Traust til Seðlabankans eykst um rúmlega 3 prósent og er nú 13 prósent.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×