Innlent

Lífeyrissjóðir létti Icesave-greiðslur

Á fundi Viðskiptaráðs Í pallborði eru Frosti Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í pontu er Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.Fréttablaðið/GVA
Á fundi Viðskiptaráðs Í pallborði eru Frosti Ólafsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, Benedikt Jóhannesson, ritstjóri Vísbendingar, og Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í pontu er Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.Fréttablaðið/GVA

Draga mætti úr vaxtakostnaði ríkisins með aðkomu lífeyrissjóðanna að því að staðgreiða skuldbindingar vegna Icesave. Við þetta þyrftu skattar ekki að hækka jafnmikið og ella. Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á fundi Viðskiptaráðs Íslands í gærmorgun um hlutverk lífeyrissjóðanna í endurreisninni.

Steingrímur segir umræðuna halda áfram, en í henni sé mikilvægt að velta upp ýmsum hugmyndum. „Jafnvel þeim að rætt verði við lífeyrissjóðina um að lækka pínulítið Icesave-reikninginn fyrir fram.“ Slíka fjárfestingu segir hann jafnvel geta verið á álitlegum kjörum fyrir lífeyrissjóðina.

Stjórnvöld hafa síðan í september átt í viðræðum við lífeyrissjóðina um mögulega aðkomu þeirra að margvíslegum verkefnum og segir Steingrímur þær vel á veg komnar. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, gagnrýndi þó á fundinum að þær hefðu ekki hafist fyrr, því samkvæmt stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins hefði þeim átt að vera lokið 1. september.

Um áttatíu manns sóttu fund Viðskiptaráðs, en markmið hans var að ræða opinskátt og fordómalaust um hugmyndir sem fram hafa komið síðustu vikur og mánuði og snerta aðkomu sjóðanna að endurreisn efnahagslífsins. Steingrímur kvaðst til viðræðu um allar leiðir, svo fremi sem þær „hrófluðu ekki við grunntilveru lífeyrissjóðanna og gríðarmikilvægu hlutverki þeirra“.

Steingrímur vék einnig orðum að hugmyndum um að skattleggja iðgjöld fremur en greiðslur úr lífeyrissjóðum. „Á komandi árum og áratugum verða tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga gegnum vaxandi útgreiðslur lífeyris stigvaxandi tekjustofn og gera þeim kleift að ráða við sínar skuldir og axla verkefni. Þess vegna væri það stór og býsna afdrifarík ákvörðun að hverfa frá því að eiga þessar tekjur í vændum,“ sagði hann.

Í erindi Hrafns Magnússonar kom fram að lífeyrissjóðirnir sæju helst tækifæri í því að koma að fjármögnun einstakra verkefna, enda væri nú um mundir fátt um fína fjárfestingarkosti. Þá sagði hann aukna áhættu í því fólgna að lána ríkinu stórar fjárhæðir, en þar með væru fullmörg egg sjóðanna komin í sömu körfu. Þá mælti að hans mati margt á móti skattlagningu iðgjalda og ljóst er að hugmyndir um slíkt njóta ekki hljómgrunns innan sjóðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×