Erlent

Ísraelar gerðu árás á Súdan

Frá Gazaströndinni þegar innsrás Ísraela stóð sem hæst. MYND/AP
Frá Gazaströndinni þegar innsrás Ísraela stóð sem hæst. MYND/AP
Ísraelskar orrustuþotur gerðu loftárás á bílalest í Afríkuríkinu Súdan í janúar síðastliðnum til að stöðva vopnaflutninga til Gaza strandarinnar.

Bandaríska blaðið New York Times hefur eftir ónafngreindum embættismönnum að loftárásin hafi verið gerð þegar innrás Ísraela á Gaza ströndina stóð sem hæst í janúar.

Fregnir hafi borist af því að lest flutningabíla væri á ferð í Súdan með vopn sem ættu að fara til Gaza fyrir milligöngu Írana.

Ísraelar hafi sent orrustuþotur til þess að eyða bílalestinni. Sagt er að að minnsta kosti þrjátíu manns hafi farist í árásinni

Aðeins einn maður komst af og eftir honum er haft að tvær orrustuþotur hafi flogið yfir bílalestina. Þær hafi svo snúið við og gert á hana árás.

Til þess að gera loftárás í Súdan hafa ísraelsku þoturnar þurft að fljúga nokkur hundruð kílómetra suður eftir Rauða hafinu á milli Egyptalands og Saudi Arabíu og sveigja svo til hægri inn í Súdan.

Það er ekkert tiltökumál fyrir Ísraelska flugherinn sem hefur oft farið í lengri og flóknari árásarferðir.

Ehud Olmert, fráfarandi forsætisráðherra Ísraels vildi lítið tjá sig um þessar fréttir. Hann sagði að Ísrael gripi til aðgerða hvar sem er og hvenær sem þyrfti að verja landið.

Óþarfi væri að fara út í smáatriði, þeir sem þyrftu að vita vissu það sem þeir þyrftu að vita.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×