Erlent

Átta látist í eldum í Suður evrópu

Skógareldar. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Skógareldar. Myndin tengist ekki fréttinni beint.
Átta hafa látist í miklum eldum sem geisað hafa í Suður Evrópu undanfarna daga. Hitabylgja og miklir vindar hafa hamlað slökkvistarfi.

Eldarnir sem nú geisa hafa brennt hátt í sex þúsund hektara lands frá því á fimmtudaginn. Slökkvistarf hefur gengið erfiðlega og loga enn landssvæði víða. Íbúar á svæðinu hafa spúlað hús sín með vatni til að koma í veg fyrir að þau verði eldinum að bráð.

Slökkviliðsmenn reyna líka hvað þeir geta að vernda húsin með því að dæla vatni yfir þau. Víða í Evrópu hafa íbúar í hudraðatali þurft að yfirgefa heimili sín vegna eldhættu.

Lögregla á eyjunni Korsíku í Frakklandi hefur handtekið þrjá menn. Tveir bændur, 24 og 21 árs eru í haldi vegna gruns um að hafa valdið eldsupptökum og þá er þriðji maðurinn í haldi grunaður um íkveikju. Á Korsíku hafa miklir eldar geisað frá því fyrir helgi og hafa fimm flugvélar frá Kanada aðstoðað við slökkvistarf.

Íbúi á svæðinu sagðist ekki ætla að yfirgefa hús sitt þótt eldur logaði í um tíu metra fjarlægð. Hann sagði íbúa rólega þrátt fyrir að eldurinn væri allstaðar.

Á Ítalíu berjast nú um 1500 slökkviliðsmenn og aðrir sjálfboðaliðar við að minnsta kosti 17 elda, aðallega á eyjunum Sardiníu og Sikiley. Þar hafa hundruðir líka þurft að yfirgefia hús sín vegna eldanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×