Innlent

Þrír teknir á Akureyri með dóp

Síðdegis í gær handtók lögreglan á Akureyri þrjá karlmenn um tvítugt grunaða um fíkniefnamisferli. Að sögn lögreglu voru í framhaldinu framkvæmdar tvær húsleitir þar sem hald var lagt á samtals um 40 grömm af ætluðu amfetamíni og kókaíni, 10 grömm af kannabisefnum og 10 ætlaðar e-töflur.

Auk þessa er einn þremenninganna grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og í bifreið hans fannst einnig smáræði af kannabisefnum. Að loknum skýrslutökum voru mennirnir látnir lausir og telst málið upplýst.

Sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×