Erlent

Putin hótar annarri gaslokun

Óli Tynes skrifar

Í janúar síðastliðnum lokuðu Rússar í tvær vikur fyrir gasflutning til Evrópu um leiðslur sem liggja í gegnum Úkraínu.

Rússar báru fyrir sig að Úkraínumenn hefðu ekki borgað sinn eigin gasreikning og það var einnig deilt um verð.

Fréttaskýrendur sögðu hinsvegar að með þessu væru Rússar fyrst og fremst að reyna að berja þetta fyrrverandi Sovétlýðveldi til hlýðni. Leiðtogar þar þykja of hallir undir Vesturlönd.

Þetta hafði alvarlegar afleiðingar fyrir yfir fimmtán Evrópuþjóðir sem þurftu að hafa allar klær úti til þess að verða sér úti um eldsneyti annarsstaðar frá.

Það gekk ekkert alltof vel enda fær Evrópa yfir tuttugu prósent af gasi sínu frá Rússlandi. Það þurfti því að loka mörgum verksmiðjum tímabundið með tilheyrandi efnahagstjóni.

Heimili urðu einnig illa úti þar sem gas er notað bæði til hitunar og matreiðslu.

Vladimir Putin er nú aftur kominn af stað og hefur látið í ljós efasemdir um að Úkraína geti staðið við skuldbindingar sínar.

Við það hefur kaldur hrollur farið um Evrópu.

Ef Rússar loka aftur fyrir gasið getur það haft sérstaklega slæm áhrif í Úkraínu á þessum tímapunkti.

Landið hefur farið sérlega illa út úr svínaflensufaraldrinum. Yfirvöld þar segja að yfir fimmþúsund manns hafi verið lagðir inn á sjúkrahús vegna hennar og sjúkrahús eru ekki síður háð gasi en aðrar stofnanir.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×