Innlent

Gagnrýnir langt gæsluvarðhald harðlega

Sigurður Ólason var hnepptur í gæsluvarðhald grunaður um stórfellt peningaþvætti.
Sigurður Ólason var hnepptur í gæsluvarðhald grunaður um stórfellt peningaþvætti.

„Mér fannst ekki tilefni til þess að halda honum svona lengi í haldi," segir Brynjar Níelsson lögmaður Sigurðar Hilmars Ólasonar sem var handtekinn og hnepptur í gæsluvarðhald vegna gruns um peningaþvætti og aðild að risa fíkniefnamáli í Hollandi.

Hann var hnepptur í gæsluvarðhald í upphaf júní. Brynjar segir það gott og vel að hann hafi upprunalega verið hnepptur í gæsluvarðhald en hann setur alvarlegt spurningamerki við tíu daga framlengingu sem dómstólar sættust á.

„Miðað við þau sakarefni, sem voru sérstaklega óskýr, var ekki hægt að sjá að það væri hægt að halda honum svo lengi," segir Brynjar um framlenginguna á gæsluvarðhaldinu.

Sigurður var stjórnarmaður í innflutningsfyrirtækinu R. Sigmundsson þegar hann var handtekinn. Þegar hann var handsamaður þá var hann grunaður um peningaþvætti og aðild að fíkniefnasmygli efna frá Suður Ameríku til Hollands.

Ekki hefur fengist uppgefið hversu mikið magn er um að ræða né tegund efnanna. Ekki einu sinni Sigurður, sem sat í gæsluvarðhaldi, fékk að vita nákvæmlega hver sakarefnin væru að sögn Brynjars.

Það er hollenska lögreglan sem rannsakar innflutninginn en málið er talið gríðarlega umfangsmikið. Efnin hlaupa á hundruðum segja heimildir.

Auk Sigurðar voru Ársæll Snorrason og Gunnar Viðar Árnason hnepptir í gæsluvarðahald. Búið er að sleppa þeim öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×