Innlent

Laun í sjávarútvegi 48 milljarðar í fyrra

Formaður LÍÚ segir útveginn taka mikilvægan þátt í endurreisn samfélagsins. Útflutningstekjur sjávarútvegsins nema að líkindum 195 milljónum á þessu ári.fréttablaðið/stefán
Formaður LÍÚ segir útveginn taka mikilvægan þátt í endurreisn samfélagsins. Útflutningstekjur sjávarútvegsins nema að líkindum 195 milljónum á þessu ári.fréttablaðið/stefán

Samanlagðar skattgreiðslur fyrirtækja í sjávarútvegi námu samtals rúmlega fimm milljörðum króna á síðasta ári. Tekjuskattur fyrirtækja nam 2,2 milljörðum og tryggingagjald nam 2,7 milljörðum. Sérstakur auðlindaskattur útgerðarinnar var 170 milljónir. Afsláttur var veittur af auðlindaskattinum á síðasta fiskveiðiári og árið þar á undan vegna niðurskurðar í þorskheimildum. Hátt olíuverð hafði að auki áhrif til lækkunar. Skatturinn kemur til fullrar greiðslu á nýhöfnu fiskveiðiári og er áætlaður 1,3 milljarðar.

Fram kom í Fréttablaðinu í gær að skattar álfyrirtækja námu 1,9 milljörðum í fyrra.

Launagreiðslur fyrirtækja í sjávarútvegi námu samtals 48 milljörðum á síðasta ári. Af þeirri fjárhæð greiddu útgerðarfélög þrjátíu milljarða og fiskvinnslan átján.

Allt bendir til að útflutningstekjur sjávarútvegsins nemi 195 milljörðum króna á þessu ári en í fyrra voru þær 170 milljarðar.

Aðalfundur Landssambands íslenskra útvegsmanna hefst í dag. Á honum verður auk annars rætt um þær vár sem helst steðja að greininni; Evrópusambandsaðild og fyrningu aflaheimilda.

Adolf Guðmundsson, formaður LÍÚ, segir báða þætti skaðlega sjávarútveginum. Hann trúir þó ekki að farin verði leið upptöku, eins og útgerðarmenn kalla fyrningaráformin, þó að kveðið sé á um það í stjórnarsáttmálanum.

Það mat grundvallar hann á starfi nefndar sjávarútvegsráðherra um endurskoðun fiskveiðilöggjafarinnar en hún á að gæta að því að sjávarútvegi séu sköpuð góð rekstrarskilyrði til langs tíma auk þess að stuðla að sátt um fiskveiðistjórnina. Hvorugt þessara markmiða náist verði aflaheimildir fyrndar enda setji sú leið meira eða minna öll sjávarútvegsfyrirtækin á hliðina.

Adolf segir sjávarútveginn taka mikilvægan þátt í endurreisn samfélagsins og þannig eigi það að vera. Nauðsynleg forsenda þess sé að Ísland hafi fullt forræði yfir auðlindinni en það kunni að tapast með aðild að Evrópusambandinu.

bjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×