Innlent

Verklok tónlistar- og ráðstefnuhúss velta á uppsetningu glerhjúps

Kristín María Birgisdóttir skrifar
Tónlistar- ráðstefnuhús.
Tónlistar- ráðstefnuhús. Mynd/ Vilhelm
Áætluð verklok tónlistar- og ráðstefnuhússins við Reykjavíkurhöfn velta á uppsetningu glerhjúps sem mun umlykja húsið. Um eitt og hálft ár tekur að setja hann upp en gert er ráð fyrir að byggingarnar verði tilbúnar í febrúar 2011.

Ein flóknasta gluggauppsetning Íslandssögunnar er hafin við tónlistar- og ráðstefnuhúsið í Reykjavík. Ár er síðan byjað var að búa til glerhjúp sem verður einkenni bygginganna. Vinnunni hefur seinkað töluvert þar sem framkvæmdin hefur reynst mun erfiðari en menn gerðu ráð fyrir. Um þrjátíu Kínverjar starfa nú hér við tónlistarhúsið við undirbúning og uppsetningu hjúpsins. Áætlað er að áttatíu til hundrað bætist svo við þegar aðalvinnan hefst á næsta ári. Pétur Eiríksson, stjórnarformaður Portusar hf sem sér um að reisa tónlistarhúsið segir þetta flóknustu uppsetningu sem hann hafi kynnst.

Upphaflega stóð til að tónlistar- og ráðstefnuhúsið yrði klárt í desember á þessu ári. Sú tímaáætlun mun þó ekki standast, enda hefur glerhjúpurinn reynst þrautinni þyngri ásamt því að vinnan við húsið hefur legið niðri í allan vetur. Áætlað er að hjúpurinn verði tilbúinn í október eða nóvember á næsta ári og áætluð verklok eru í febrúar 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×