Innlent

Kjaradeilu blaðamanna vísað til Ríkissáttasemjara

Mynd/Stefán Karlsson
Blaðamannafélag Íslands hefur vísað kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins til Ríkissáttasemjara en það er í fyrsta sinn í aldarfjórðung að slíkt gerist, að fram kemur í tilkynningu.

„Samningar hafa verið lausir í um ár en fyrri viðræðulotu lauk þegar íslenska bankakerfið hrundi. Í kjölfarið hefur blaðamannastéttin gengið í gegnum miklar hremmingar með launalækkunum, uppsögnum og auknu vinnuálagi," segir í tilkynningunni.

Þegar viðræður hófust að nýju um miðjan september, gerði samninganefnd Blaðamannafélagsins kröfu um sambærilegar kjarabætur og fengist höfðu á almennum vinnumarkaði en því var hafnað af hálfu viðsemjenda þótt samið hafi verið við aðrar stéttir á fjölmiðlum um þessar hækkanir. Á sama tíma hefur komið fram að lækkun launa inni á vinnustöðum gangi ekki til baka.

„Við þetta getur Blaðamannafélagið ekki unað og biður því Ríkissáttasemjara að hlutast til um lausn deilunnar. Ljóst er að lífskjör hafa versnað til muna frá síðustu samningum. Blaðamannafélagið getur ekki sætt sig við að blaðamenn einir fái ekki þær lágmarks kjarabætur sem tryggðar eru á almennum vinnumarkaði."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×