Innlent

Óttaðist róg og baktal skósveina Óskars

Hér sjást Gestur og Óskar þegar prófkjör framsóknarmanna árið 2006 fór fram í Reykjavík. Gestur segir kosningabaráttuna það árið hafa verið svo dýra að ekki væri hægt að ráða starfsmann, þremur og hálfu ári síðar.
Fréttablaðið/pjetur
Hér sjást Gestur og Óskar þegar prófkjör framsóknarmanna árið 2006 fór fram í Reykjavík. Gestur segir kosningabaráttuna það árið hafa verið svo dýra að ekki væri hægt að ráða starfsmann, þremur og hálfu ári síðar. Fréttablaðið/pjetur

Gestur Guðjónsson, sem meðal annars hefur verið formaður kjördæmasambands Framsóknarflokksins í Reykjavík og varaformaður umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar, sagði sig frá öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn í kjölfar deilu við borgarfulltrúann Óskar Bergsson. Í bréfi sem Gestur sendi borgarstjórnarflokknum fyrir tveimur vikum, og Fréttablaðið hefur undir höndum, segist hann hafa hætt af ótta við róg og baktal skósveina Óskars.

Deila Óskars og Gests snerist um það hvort kjördæmasambandið ætti að ráða sér starfsmann fyrir borgarstjórnarkosningarnar næsta vor. Það vildi Óskar, en Gestur stóð gegn því og taldi ekki rekstrargrundvöll fyrir slíku, enda væri kjördæmasambandið skuldum hlaðið eftir síðustu borgarstjórnarkosningar.

„Ekkert borð er fyrir báru til að fara í slíkar mannaráðningar upp á von og óvon,“ skrifar Gestur. Fleiri mál hafi reyndar komið til sem Óskari hafi eflaust mislíkað, en um þau þurfi að ríkja trúnaður.

Gestur segir að í kjölfar þessara deilna hafi Óskar boðað hann á fund og sagst vilja að Gestur hætti formennsku í sambandinu, „hann vilji hafa mann sem hann geti treyst að framkvæmdi hlutina eins og hann vilji, enda kosningavetur framundan“.

Þetta segir Gestur hafa komið sér „algjörlega í opna skjöldu, enda hefur Óskar í mörg ár talað um lýðræðið í flokknum og nauðsyn þess að sem flest sjónarmið komist að og gegn klíkuvæðingu sem hefur farið svo illa með okkur framsóknarmenn í Reykjavík í gegnum langan tíma“.

Eftir kröfu Óskars um afsögn hafi Gestur einungis átt tveggja kosta völ, „að taka slaginn á kjördæmaþingi og lifa með þeim rógi og baktali sem ég hef orðið að upplifa frá skósveinum Óskars þar sem mér yrði kennt um allt sem aflaga færi í kosningabaráttunni, en þakkandi sér allt sem vel fer, eða að þakka bara fyrir mig og fara og leyfa þeim að eiga sviðið sem það vildu“. Hann hafi því hætt til að valda lágmarksúlfúð í flokknum. Hann hafi ekki viljað leggja á sig vinnu við undirbúning kjördæmaþings, þar sem hann yrði einungis niðurlægður opinberlega.

Óskar Bergsson vill lítið tjá sig um málið. „Þetta er bara innanflokksmál hjá okkur sem er enn óleyst og ég er í samskiptum við Gest til að reyna að leysa þennan ágreining,“ segir hann.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×