Enski boltinn

Ekki góður dagur hjá Grétari Rafni og Hermanni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hermann Hreiðarsson og Peter Crouch fagna marki þess síðarnefnda í dag.
Hermann Hreiðarsson og Peter Crouch fagna marki þess síðarnefnda í dag. Mynd/GettyImages

Þetta var ekki góður dagur fyrir Grétar Rafn Steinsson og Hermann Hreiðarsson í fallbaráttunni í ensku úrvalsdeildinni. Bolton tapaði 1-3 fyrir Fulham á heimavelli og Portsmouth missti frá sér sigur í uppbótartíma á móti Middlesbrough.

Grétar Rafn Steinsson lék allan leikinn í hægri bakverðinum hjá Bolton sem tapaði 1-3 fyrir Fulham. Andy Johnson og Simon Davies komu Fulham tvisvar yfir en Kevin Davies jafnaði leikinn í millitíðinni. Bolton sótti síðast stíft í lokin en Diomansy Kamará innsiglaði þá sigurinn.

Bolton er nú í 11. sæti sem hljómar ekkert illa en liðið er samt aðeins fjórum stigum frá fallsæti og því má lítið gerast til þess að staðan verði slæm.

Hermann Hreiðarsson spilaði allan leikinn í vinstri bakverðinum í 1-1 jafntefli Portsmouth á útivelli á móti Middlesbrough. Peter Crouch kom Portsmouth yfir á 30. mínútu og það stefndi í mikilvægan útisigur hjá Hermanni og félögum þegar Marlon King skoraði jöfnunarmark Middlesbrough í uppbótartíma.

Portsmouth er nú í 17. sæti með jafnmörg stig og Stoke en með betri markatölu. Stoke, Middlesbrough og West Brom sitja sem stendur í fallsætunum þremur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×