Innlent

Óviðunandi að hægagangur tefji nauðsynlegar framkvæmdir

Hvalfjarðargöng.
Hvalfjarðargöng. Mynd/Pjetur
Bæjarráð Akraness beinir þeirri eindregnu áskorun til ríkisstjórnar Íslands, samgönguráðherra og þingmanna Norð- vesturkjördæmis að fylgja eftir án tafar tillögum og hugmyndum um tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Ráðið telur óviðunandi að hægagangur á undirbúningi tefji nauðsynlegar framkvæmdir.

Fram kemur í tilkynningu að bæjarráð taki undir með íbúum á Kjalarnesi að óviðunandi sé með öllu að þar eigi sér ekki stað án tafar nauðsynlegar vegabætur. Þar segir jafnframt að liðlega tvær milljónir ökutækja fari um Kjalarnes og Hvalfjarðargöng árlega og einsýnt að mæta þarf eðlilegum kröfum um umferðaröryggi með nauðsynlegum framkvæmdum.

„Vísað er til samkomulags Spalar ehf. og Vegagerðarinnar frá 9. janúar 2007 þar sem Vegagerðinni er tryggð fjármögnun til nauðsynlegra undirbúningsframkvæmda vegna tvöföldunar vegar á Kjalarnesi, en Spölur ehf. hefur þegar lokið öllum nauðsynlegum undirbúningsrannsóknum vegna tvöföldunar Hvalfjarðarganga," segir í tilkynningu frá bæjarfélaginu.

Að mati bæjarráðs er óviðunandi að hægagangur á undirbúningi tefji nauðsynlegar framkvæmdir. „Tvöföldun vegar á Kjalarnesi og tvöföldun Hvalfjarðarganga er í senn mjög mikilvægt öryggismál en einnig skynsamleg og arðsöm framkvæmd ekki síst nú þegar brýn nauðsyn er á atvinnuskapandi framkvæmdum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×