Innlent

Forseti þarf að synja til að vera sjálfum sér samkvæmur

Kristján Már Unnarsson. skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands.

Meginrök forseta Íslands fyrir að synja fjölmiðlalögum staðfestingar fyrir fimm árum voru þau að gjá hefði myndast milli þingvilja og þjóðarvilja.

Skoðanakönnun um Icesave-samninginn sýnir að stór gjá hefur einnig myndast milli forystu ríkisstjórnarinnar og þjóðarinnar í því heita deilumáli.

Um tvöþúsund manns hafa nú skrifað undir áskorun á netinu til forseta Íslands að hafna að staðfesta Icesave-ábyrgðina, verði hún samþykkt á Alþingi, og vísa málinu í þjóðaratkvæði.

Meginrök forsetans fyrir fimm árum þegar hann hafnaði fjölmiðlalögunum voru þau að djúp gjá hefði myndast á milli þjóðar og þings. Hann sagði þá:

"Því miður hefur skort samhljóminn sem þarf að vera milli þings og þjóðar í svo mikilvægu máli. Fjölmiðlarnir eru sá hornsteinn í lýðræðisskipan og menningu okkar Íslendinga að ekki er farsælt að varanlega verði djúp gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Slíka gjá þarf að brúa.

Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Gefi menn sér að forsetinn verði samkvæmur sjálfum sér er ljóst að ríkisstjórnin er í bobba. Skoðanakönnun Gallup, sem birtist fyrir fjórum dögum, sýnir að 60 prósent aðspurðra eru andvígir Icesave-ábyrgðinni, og aðeins 19 prósenta styðja hana.

Forysta ríkisstjórnarinnar virðist því þurfa að brúa stóra gjá milli sín og þjóðarinnar í Icesave-málinu, vilji hún ekki eiga það á hættu að forsetinn hafni væntanlegum lögum og vísi þeim í þjóðaratkvæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×