Innlent

Þingeyingar vilja framlengja við Alcoa

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sveitarstjórn Norðurþings vill að viljayfirlýsing við Alcoa um álver á Bakka, sem rennur út um mánaðamótin, verði framlengd fram á næsta ár og hefur óskað eftir fundi með ríkisstjórninni um málið í þessari viku.

Sveitarfélagið Norðurþing, ríkisstjórnin og Alcoa eru aðilar að viljayfirlýsingunni en hún rennur út þann 1. október og er grundvöllur undirbúningsvinnu vegna álvers við Húsavík. Innan ríkisstjórnarinnar eru efasemdir um að halda eigi verkefninu áfram og lýsti Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra því yfir í viðtali á Stöð 2 nýlega að hann vildi sjá annarskonar nýtingu orkunnar í Þingeyjarsýslum.

Bergur Elías Ágústssonar, sveitarstjóri Norðurþings, segir að óskað hafi verið eftir fundi með ríkisstjórninni í þessari viku. Hann vill að viljayfirlýsingin við Alcoa verði framlengd fram á næsta ár. Fá þurfi svör við þeim spurningum sem ætlunin var að svara. Hann minnir á að ráðherra í fyrri ríksstjórn, Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra, hafi tafið málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×