Innlent

Vilja ráða sem flesta

Sveitarfélögin ætla að ráða eftir megni ungt fólk á aldrinum 14 ára og fram yfir tvítugt í sumarvinnu í sumar. Í Hafnarfirði fjölgaði umsóknum um fjórðung. Ljóst er að „stór hópur fær ekki vinnu nema til komi sérstakt átak,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Sveitarfélögin ætla að ráða eftir megni ungt fólk á aldrinum 14 ára og fram yfir tvítugt í sumarvinnu í sumar. Í Hafnarfirði fjölgaði umsóknum um fjórðung. Ljóst er að „stór hópur fær ekki vinnu nema til komi sérstakt átak,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Stóru sveitar­félögin hafa ákveðið að ráða sem flesta unglinga í sumarstörf og sums staðar verður vinnutími styttur til að koma fleirum að. Borgaryfirvöld ætla að ráða 5.200 ungmenni í sumar, þar af verða 4.000 ungmenni ráðin til Vinnuskólans. Aldrei hafa fleiri fengið sumarstörf hjá borginni. Bæjaryfirvöld í Kópavogi ráða 750 manns og er það ríflega tvöföldun frá því í fyrrasumar. Bærinn ræður auk þess um 900 unglinga á aldrinum fjórtán til sextán ára í Vinnuskóla. Það er þriðjungs aukning frá því í fyrra. Ungmenni sautján ára og eldri verða ráðin í 250 stöður í Hafnarfirði í sumar. Þegar hafa um 800 ungmenni sótt um störf og er það fjórðungs aukning frá fyrra ári. „Það er ljóst að stór hópur fær ekki vinnu nema til komi sérstakt átak. Í fyrra var tekin ákvörðun um að taka inn um 100 starfsmenn aukalega og er nú verið að skoða með hvaða hætti það verður í ár,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðar. Í Mosfellsbæ fá allir unglingar á aldrinum fjórtán til sextán ára starf í vinnuskóla. Um 400 unglingar eru á þessum aldri í bænum og er gert ráð fyrir að nánast allir sæki um. Krakkarnir verða því helmingi fleiri en í fyrra. Þá verða ungmenni sautján ára og eldri ráðin í minnst 55 stöður, sem er aukning um helming frá fyrra ári. Því til viðbótar er stefnt að því að ráða fólk á aldrinum sautján til tuttugu ára í ýmis sérverkefni. Um 350 ungmenni hafa sótt um sumarvinnu í Garðabæ en sjötíu störf voru auglýst. Allir umsækjendur fá vinnu í sumar en vinnutími verður styttur svo fjölga megi störfum. Veitt verður sjötíu milljónum aukalega í þetta atvinnuátak en sambærileg fjárveiting í fyrra var 25 milljónir króna. Í Reykjanesbæ verður Vinnuskólinn opinn öllum nemendum í fjórar vikur. Um 150 sóttu um störf flokksstjóra, þrefalt fleiri en í fyrra. Búist er við að 30-40 verði ráðnir. Bærinn fer í umhverfisverkefni í sumar og verða um 200 störf auglýst í byrjun maí. Steinunn Árnadóttir, garðyrkjustjóri Seltjarnarnesbæjar, segir að allt skólafólk fái vinnu í sumar. Vinnutími verði styttur um hálftíma hjá hinum yngstu og klukkutíma hjá hinum. Krakkar í Vinnuskólanum fái vinnu í átta vikur.- ghs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×