Erlent

Listsköpun úr líkamsleifum

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Moonbattery.com

Af moldu ertu kominn, að moldu skaltu aftur verða. Eða málverki. Breska listakonan Val Thompson notar ösku sem orðið hefur til við líkbrennslu til að töfra fram hin fegurstu listaverk.

Thompson hefur verið listhneigð frá barnsaldri og lagði stund á nám í listaskóla áður en hún hóf störf við umönnun aldraðra. Á sextugsaldri hefur hún hins vegar snúið sér alfarið að listinni og tók að nota ösku í málverk sín þegar hún fékk óvenjulega beiðni frá bróður sínum eftir að svili þeirra lést úr hjartaáfalli.

Eftirlifandi eiginkona hans vildi að aska manns síns yrði notuð að hluta til við að mála mynd sem prýðir nú stofuna hjá henni. Myndin sýnir strandlengju en hinn látni hafði sérstaka unun af að eyða fríum sínum við strendur.

Þetta tiltæki spurðist út og sló svo rækilega í gegn að Thompson hefur nú varla undan að mála myndir með þessum hætti og er beinlínis að drukkna í ösku sem ættingjar látinna færa henni og biðja hana að koma í listrænan búning. Hefur Thompson opnað vinnustofuna Ash 2 Art og hefur að sögn nóg að gera í öskunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×