Erlent

Starbucks tekur upp skyndikaffi

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Starbucks-kaffihúsakeðjan mun frá og með næsta þriðjudegi selja skyndikaffi í bréfum til að mæta kröfum neytenda um ódýrari kaffidrykki.

Auðvitað er nýja skyndikaffið einnig niðurskurðaraðgerð gagnvart Starbucks-keðjunni sjálfri sem neyðst hefur til að loka yfir þúsund kaffihúsum og segja upp fjölda starfsmanna síðan í árslok 2007. Það segir sig sjálft að skammtur af kaffi sem neytandinn setur í bolla og bætir heitu vatni út í felur í sér mun minni þjónustu af hálfu seljandans, í raun enga nema söluna sjálfa.

Nýja kaffið heitir Via og er keimlíkt Neskaffinu sem Íslendingum er svo vel kunnugt. Ætlun Starbucks er öðrum þræði að hrista af sér þá ímynd að þar séu eingöngu seldir rándýrir kaffidrykkir, sem hefur nú reyndar verið raunin, en nýja Via-kaffið kostar innan við dollara skammturinn auk þess sem hægt verður að fá 12 bréf fyrir 9,95.

Með þessu vilja Starbucks færa sig þangað sem viðskiptavinurinn er, segir Tom Forte sem annast markaðsmál fyrirtækisins. Mörgum finnst þó ef til vill sem hinn sanni kaffihúsaandi sé fyrir borð borinn með tiltækinu enda umgjörð skyndikaffisins öll með þeim hætti að þess sé neytt heima eða í vinnunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×