Erlent

Nýtt efnahagslegt járntjald milli austur og vesturs

Ungverjar telja að nýtt efnahagslegt járntjald verði dregið milli Austur- og Vestur-Evrópu verði nýju aðildarríkjum Evrópusambandsins í austri ekki hjálpað að takast á við alheimkreppunnar. ESB leiðtogar funduðu í dag um viðbrögð við kreppunni. Þeir hafna verndarstefnu.

Tilefni fundarins voru ummæli Sarkozy Frakklandsforseta um að franskir bílaframleiðendur fengju neyðarlán í kreppunni ef þeir segðu Frökkum ekki upp í hagræðingarskyni. Þetta vakti ugg í brjósti margra ESB leiðtoga, ekki síst í Austur-Evrópu þar sem kreppan hefur valdið töluverðum búsifjum.

Leiðtogar níu ríkja í Austur-Evrópu leggja til að stofnaður verði nærri tvö hundruð milljarða evra neyðarsjóður til bjargar þeim ríkjum sem verst standa og að reglur hins frjálsa markaðar verði nýttar til hins ítrasta til að styðja efnahag ríkja sambandsins og tryggja atvinnu. Verndarstefnu skuli hafnað enda á skjön við stefnu ESB.

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagðist ekki sjá þörf á milljarðasjóði. Tekið yrði á vanda hvers ríkis fyrir sig á vettvangi ESB og á alþjóðavettvangi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×