Innlent

Illugi: Árni Páll með sama viðhorf og VG

Við upphaf þingfundar í dag var tekist á um ræðu Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, á ársfundi Alþýðusambands Íslands í gær. Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks gagnrýndu ræðuna og sagði Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, Árna Pál hafa sama viðhorf og VG til atvinnumála. Það væri áhyggjuefni því það viðhorf einkenndist af því að berja eigi niður stóriðju og sjávarútveg.

Á ársfundinum í gær sagði Árni Páll meðal annars ef að sjávarútvegur og stóriðja geti ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta sé spurning hvort yfir höfuð hafi verið veðjað á réttan hest og ekki þurfi að leita annarra kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokks, sagðist hafa hrokkið verulega við þegar hann las ræðuna í gær. „Hann er að hleypa með þessu, að mínu mati, öllum hugmyndum um sátt í samfélaginu og atvinnumarkaði uppnám."

Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist sáttur með nálgun Árna Páls. Umræðan snúist um hvar hægt sé að sækja fé í ríkissjóð.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði ljóst að samhljómur væri á milli stjórnarflokkanna þegar komi að hægja á öllum framkvæmdum. „Fyrirtækin eru fólkið. Fólkið er fyrirtækin. Það er samhengi þarna á milli."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×