Innlent

Ósátt við framlengda dvöl AGS

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lilja segist ekki hafa myndað sér afstöðu gagnvart Icesave samningunum. Mynd/ Pjetur.
Lilja segist ekki hafa myndað sér afstöðu gagnvart Icesave samningunum. Mynd/ Pjetur.
„Mér finnst það ekkert sjálfgefið að veru Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé framlengt um hálft ár. Mér finnst það eitthvað sem stjórnvöld þurfi að ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn," segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs. Hún segir að Íslendingar hafi aldrei beðið um að vera hálfu ári lengur í prógramminu. Það sé alfarið ákvörðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Mér finnst það í rauninni ámælisvert og ég er ekki sátt við það," segir Lilja.

Lilja segir ekki nauðsynlegt að taka þau lán sem standi til boða. „Í sjálfu sér sé ég ekki nauðsyn þess að fá þessi lán akkúrat núna nema þá kannski til að auka traust á krónunni með því að leggja þetta inn á gjaldeyrisvarasjóð," segir Lilja. Gjaldeyrisvarasjóðurinn sé í fínum málum núna. „Hann er eitthvað um 400 milljarðar. Það eru náttúrlega lánalínur á bakvið sjóðinn og það þarf ekki að endurfjármagna þær fyrr en um mitt næsta ár," segir Lilja. „Þessir 100 milljarðar kannski auka traust fólks á krónunni en þá kemur á móti að þessi efnahagsspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins dregur úr því trausti," segir Lilja. Hún bendir á að hátt vaxtastig sé hvorki til þess fallið að auka traust innlendra né erlendra fjárfesta á því að við séum á leið út úr þessari kreppu. Lilja segist því vilja fá endurskoðun á efnahagsáætluninni frá grunni enda hafi hún byggt á tölum um miklu minni skuldsetningu



Hefur ekki tekið afstöðu til Icesave frumvarpsins


Lilja segist ekki vera búin að taka ákvörðun um afstöðu sína til frumvarpsins um Icesave. Ég hef svolítið verið að bíða eftir skuldaþolsútreikningum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hann lofar að birta á morgun. Ég hallast frekar að því að hafna þessum samningi á meðan ég trúi því ekki að við getum staðið undir honum," segir Lilja. Hún geti ekki skrifað undir eitthvað sem hún telji að ekki sé hægt að standa undir. Hún hafi alltaf haldið því fram að vextir á láninu séu algerlega óásættanlegir.

Lilja segist þekkja til í Bretlandi, meðal annars vegna sex ára námsdvalar sinnar þar, og hún hafi vitað að Bretar myndu taka þá fyrirvara sem Alþingi samþykkti í ágúst sem óskalista. Það hafi síðan reynst vera rétt mat hjá sér. Ástæðan fyrir því að hún hafi fallist á fyrirvarana væri sú að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gengist inn á það að vinna að fyrirvörunum með meirihlutanum. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafi síðan setið hjá við atkvæðagreiðsluna hafi hún ekki vitað hvað hún átti til bragðs að taka. Þá hafi hún gert sér grein fyrir því að ekki yrði nægilega mikill slagkraftur á bakvið fyrirvarana til þess að Bretar og Hollendingar gætu litið á þá sem neitt annað en óskalista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×