Erlent

Sérfræðingar vonlitlir um vopnahlé á Gaza

Mikið mannfall  hefur orðið í átökum síðustu daga á Gaza.
Mikið mannfall hefur orðið í átökum síðustu daga á Gaza.
Þrátt fyrir að Hamas-samtökin og Ísraelar hafi sent fulltrúa til Egyptalands til viðræðna um vopnahlé á Gaza dvína vonir um að nokkuð verði af samkomulagi um slíkt. Sprengjum rigndi yfir Gaza í nótt fimmtánda daginn í röð og flugskeytum var áfram skotið á Ísrael.

Egyptar og Frakkar hafa reynt að miðla málum og fá deilendur að samningaborðinu til að semja um vopnahlé. Það hefur tekist að því er varðar að fá fylkingarnar til viðræðna. Fulltrúar Hamas og Ísraela eru í Kaíró í Egyptalandi þar sem fundað er. Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna og leiðtogi Fatah-hreyfingarinnar, er einnig væntanlegur til Kaíró til viðræðna við Hosni Mubarak Egyptalandsforseta um ástandið á Gaza.

Fréttaskýrendur og sérfræðingar eru þó ekki vongóðir um að samið verði um vopnahlé. Sem dæmi hafi Egyptar hafnað því að leyfa alþjóðlegum eftirlitsmönnum að starfa á landamærum Egyptalands að Gaza en þeim yrði falið að koma í veg fyrir vopnasmygl til herskárra á Gaza. Egyptar munu þess í stað vilja tækniaðstoð fyrir eigin eftirlitsmenn á landamærunum. Ísraelar segja þetta óásættanlegt. Egyptum hafi hingað til ekki tekist að koma í veg fyrir að Hamas-liðar á Gaza yrðu sér úti um vopn. Þar fyrir utan hafa bæði Ísraelar og Hamas-liðar hafnað ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um tafarlaust vopnahlé og það bendi ekki til að þeir vilji semja.

Í nótt héldu Ísraelar áfram að varpa sprengjum á Gaza og flugskeytum var skotið frá svæðinu yfir landamærin á skotmörk í Suður-Ísrael. Til skotbardaga mun einnig hafa komið milli ísraelskra hermanna og herskárra Palestínumanna á jörðu niðri. Ísraelsher mun þó ekki hafa sótt inn á þéttbýlustu svæðin á Gaza. Hlé verður þó á bardögum í þrjár klukkustundir í dag að sögn Ísraela þannig að Gazabúar geti orðið sér út um nauðsynjar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×