Erlent

Brown og Obama bjartsýnir á leiðtogafundi

Götubardagar eru hafnir í Lundúnum og Bretar búa sig undir mikið eignatjón í mótmælum vegna ráðstefnu tuttugu helstu iðnvelda heims. Barack Obama segist sannfærður um að ráðstefnan muni skila miklum árangri.

Óeirðalögregla var kölluð út eftir að ráðist var á lögregluþjón í Lundúnum í dag og hópur fólks reyndi að brjóta sér leið inn í Englandsbanka.

Búist er við að tugþúsundir manna taki næstu daga þátt í mótmælum vegna G-20 fundarins. Yfirvöld eru viðbúin því að að mikið tjón verði í þeim óeirðum.

Reiði fólks beinist ekki síst að bönkunum. Kveður svo rammt að því að starfsfólki hefur verið ráðlagt að mæta til vinnu í gallabuxum en ekki í teinóttu jakkafötunum.

Margir hafa lýst þeirri skoðun að þetta sé síðasta tækifærið fyrir ráðstefnuþjóðirnar að ná breiðu samkomulagi um hvernig eigi að berjast sameiginlega gegn kreppunni.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna var bjartsýnn á blaðamannafundi með Gordon Brown í dag. Hann kvaðst sannfærður að fundurinn komist að samhljóða niðurstöðu um að tekið verði á kreppunni sameiginlega. Hann sagði of mikið hafa verið gert úr því að mikið bæri á milli.

Gordon Brown er sammála Obama um að ráðstefnugestir muni ná saman um lausnir á kreppunni. Hann telur að hlutverk ráðstefnunnar sé hvorki meira né minna en að enduskipuleggja fjármálakerfi heimsins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×